146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

upplýsingar um eigendur fjármálafyrirtækja.

[10:39]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Varðandi þetta opna, gagnsæja ferli við sölu bankanna, það er frábært að heyra hæstv. fjármálaráðherra tala svona afdráttarlaust í því. En svo við fáum aðeins meiri dýpt í hvað það þýðir að ferlið sé opið og gagnsætt, hafið yfir allan vafa og gagnrýni og tortryggni, þetta eru æðisleg orð að heyra hjá ráðherra, en förum aðeins dýpra í hvað þau þýða. Hann hefur kallað eftir að fá upplýsingar um hverjir séu raunverulegir kaupendur að hlutum Arion banka. Til þess að þetta sé hafið yfir allan vafa og tortryggni, er þetta ekki eitthvað sem landsmenn gætu fengið aðgang að? Eins og lögin eru núna er það bara Fjármálaeftirlitið sem fær þau gögn en í trúnaði. Nefndir geta í sjálfu sér kallað eftir þeim, efnahags- og viðskiptanefnd mun líklega gera það. Smári McCarthy hefur kallað eftir því. Ég sé ekki að landsmenn geri annað en að tortryggja eftirlitsstofnanir landsins eftir allt það sem við vitum um hvernig fyrri einkavæðingar hafa farið fram þar sem þær voru blekktar og hlutir faldir og þær virtust ekki hafa nægar heimildir o.s.frv. Er þetta ekki eitthvað sem væri hægt að gera? Að landsmenn fái bara að sjá hverjir séu raunverulegir eigendur fjármálafyrirtækja í landinu?