146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

Fjármálaeftirlitið og upplýsingar um kaupendur banka.

[10:46]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla kannski aðeins að umorða seinni hluta spurningarinnar. Það er ljóst að við sem störfum á þinginu, m.a. í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, þurfum að spyrja þeirrar spurningar hvort lagaramminn sé skýr. Mín spurning var hvort hæstv. fjármálaráðherra og fjármálaráðuneytið hefðu nú þegar látið kanna að þær breytingar sem hafa orðið á regluverkinu tryggi með einhverjum hætti að Fjármálaeftirlitið sem sjálfstæð stofnun, en með lagaumhverfi héðan og með frumkvæði fjármálaráðherrans sem er yfir stofnuninni, hafi möguleika á að kalla fram þessar upplýsingar. Eitt er að hafa þær skoðanir að við viljum það og annað að sýna í verki að það sé hægt. Mér finnst þetta því mjög mikilvægur punktur sem þarf að koma fram.

Nú hefur ríkisstjórnin einnig verið með drög að eigandastefnu þar sem á að selja hluti í ríkisbönkum. Í ljósi yfirlýsinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og í ljósi þess að við erum kannski stödd þar sem við vitum ekki nóg, (Forseti hringir.) hvort við höfum tækin og tólin til þess, (Forseti hringir.) er þá fjármálastefnan og fjármálaáætlunin í uppnámi eða er hæstv. ráðherra tilbúinn að lýsa því yfir að við verðum að fara mjög hægt um þær dyr (Forseti hringir.) að selja hluti ríkisins í ríkisbönkum og selja þá ekki öðrum aðilum en þeim sem við vitum hverjir eru?