146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

Fjármálaeftirlitið og upplýsingar um kaupendur banka.

[10:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda aftur fyrir ítrekun hans. Já, það er alveg ljóst, og það er mjög skýr skoðun mín, að við eigum að vanda okkur. Við eigum að undirbúa ferlið hér í sameiningu, öll, að sölu bankanna. Ég hef engan áhuga á að fara að selja einhverjum huldumönnum hlut ríkisins í bönkunum. Nú á ríkið ekki aðild að þessu ferli eins og hv. þingmaður tók fram en engu að síður skiptir það okkur máli hverjir það eru sem eru þarna að baki. Ég veit að Fjármálaeftirlitið hefur heimildir þegar hluturinn fer yfir ákveðna prósentu. Ég veit að það hefur líka heimildir þegar hluturinn er ráðandi og ég á von á því að á þá hluti sem þarna er fjallað um, a.m.k. þá stærri, verði litið með sama hætti og á ráðandi hluti.