146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um kaup í Búnaðarbankanum.

[11:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Hver skýlir sér bak við grímu lundans? Skýrslan sem við ræðum hér vekur svo sannarlega upp spurningar um margt sem sneri að einkavæðingunni árið 2003. Ekki er nokkur vafi á því að margir voru blekktir og m.a. margir sem ekki höfðu ástæðu til annars en að ætla að þeim væri sagt satt um kaupendur. En spurningar vakna um þátt eftirlitsstofnana og aðkomu þeirra að eðlilegu eftirliti með kaupum sem skiptu framtíð Íslands jafn miklu máli og einkavæðing tveggja ríkisbanka á sama tíma. Endalok þessara banka fimm árum síðar urðu til þess að íslenska þjóðin fór í gegnum meiri hörmungar af mannavöldum en dæmi eru til um á lýðveldistímanum. Þrátt fyrir að rökstuddur grunur væri um annað og oftar en einu sinni settur fram af hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni, sem þá var „bara aðjúnkt“ eins og svo smekklega var að orði komist, upplýstu hvorki Ríkisendurskoðun né Fjármálaeftirlitið málið. Ekki verður séð af gögnum að þessar stofnanir hafi gert alvarlega tilraun til að ganga úr skugga um að ekki væri um blekkingarleik að ræða. Fyrir þingmenn og þjóð er mikilvægt að vita svarið við spurningunni: Getum við treyst eftirlitsmönnunum? Hver hefur eftirlit með eftirlitinu?

Úr bréfi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem birt var í lok heimsóknar sjóðsins til Íslands nú í vikunni vil ég leyfa mér að lesa, með leyfi forseta:

„Afar mikilvægt er að marka stefnu sem tryggir að bankarnir verði í höndum traustra eigenda. Sýna þarf þolinmæði við einkavæðingu ríkisbankanna tveggja, með áherslu á að finna íhaldssama kaupendur sem sýnt hafa langtímahollustu við Ísland. Í öllu falli ættu gæði nýrra eigenda að hafa forgang umfram hraða viðskiptanna eða verð. Nýleg kaup á eina einkarekna bankanum meðal þeirra stærstu mun reyna á FME. Frá sjónarhóli fjármálastöðugleika og hlutleysis er nauðsynlegt að framkvæmt verði ítarlegt, nákvæmt og sanngjarnt „fit-and-proper“ hæfismat“.

Rifjum upp söguna varðandi annan banka sem einkavæddur var á sama tíma og Búnaðarbankinn. Þann 3. febrúar 2003 tók FME ákvörðun um hæfi Samson eignarhaldsfélags við að eignast hlut í Landsbankanum. Þar sagði m.a., með leyfi forseta:

„Í bréfum Fjármálaeftirlitsins til Samson og viðræðum við forsvarsmenn þess hefur verið lögð á það rík áhersla að tryggt verði að eignarhlutur þeirra í bankanum, ef af verður, skapi þeim ekki stöðu eða ávinning annan en þann sem felst í ávinningi almennra hluthafa af heilbrigðum og arðsömum rekstri bankans. Þannig muni félagið, eigendur þess, tengdir aðilar eða kjörnir fulltrúar í bankaráði ekki njóta aðstöðu í bankanum, svo sem viðskiptakjara, íhlutunar í viðskiptalegar ákvarðanir er varða þá sjálfa, tengd félög eða samkeppnisaðila, eða upplýsinga um viðskipti núverandi eða tilvonandi samkeppnisfyrirtækja.“

Var þetta ákvæði virt í rekstri Landsbankans á sínum tíma? Eða var ákvörðun Fjármálaeftirlitsins orðin tóm? Ég held lestrinum áfram:

„Meðal atriða sem Fjármálaeftirlitið lagði til er að reglum bankaráðs verði breytt á þann hátt að tryggt verði að upplýsingagjöf til bankaráðsmanna fari aðeins fram í gegnum bankaráð, að starfsmönnum verði óheimilt að veita bankaráðsmönnum upplýsingar um viðskiptamenn bankans, að vanhæfisreglur í bankaráði verði styrktar og að upplýsingagjöf til bankaráðs um fyrirgreiðslu til venslaðra aðila verði víðtækari og taki ótvírætt til einstaklinga og fyrirtækja í nánum tengslum við bankaráðsmenn.“

Ég spyr: Voru þessi ákvæði virt meðan bankaráðsformaðurinn var með skrifstofu á milli bankastjóranna tveggja?

Fjármálaeftirlitið taldi reyndar að þeir Björgólfsfeðgar væru óskyldir aðilar þvert á það sem Íslendingabók segir. Langt var til þess seilst að þurfa ekki að uppfylla skilyrði framangreindrar ákvörðunar.

En nú eru breyttir tímar, eða hvað? Við stöndum aftur frammi fyrir því að erlendir aðilar vilja kaupa íslenskan banka. Hverjir standa á bak við þessa sjóði? Slóðin liggur til aflandseyja sem fram að hruni voru okkur flestum framandi eða óþekktar. Eru þessir sjóðir raunverulegir eigendur? Þeir segjast vera það, en þeir þurfa að leggja spilin á borðið.

Virðulegi forseti. Síðastliðinn föstudag skrifaði ég Fjármálaeftirlitinu bréf með 11 spurningum sem lutu að eignarhaldi á þeim sjóðum eða fyrirtækjum sem höfðu keypt hluti í Arion banka. Í ljósi sögunnar þarf eignarhaldið að vera sannreynt með öllum ráðum. Ég vænti þess að FME svari svo fljótt sem auðið er. Ef ekki koma fram óyggjandi sannanir um það hverjir eru raunverulegir eigendur verður traust á bankakerfinu ekki endurvakið. Fyrir okkur sem samfélag er það líka grundvallaratriði að við getum treyst eftirlitsmönnunum, Fjármálaeftirlitinu og Ríkisendurskoðun.

Frú forseti. Við verðum að vita hver er bak við grímu lundans.