146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um kaup í Búnaðarbankanum.

[11:21]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Næstu skref í þessu máli koma fram í þeirri þingsályktun sem var samþykkt á síðasta ári og bjó til þá rannsóknarnefnd sem var að skila skýrslunni sem við erum að ræða. Þau eru í raun tvíþætt, og þar kemur að hlutverki stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, þ.e. annars vegar að ákveða hvort halda eigi áfram og fara í þá heildstæðu rannsókn sem við erum búin að vera að tala um, heildstæða rannsókn á einkavæðingu Landsbanka Íslands — nú man ég ekki alla bankana en ég á við þessa þrjá viðskiptabanka sem voru á sínum tíma og voru seldir 2002.

Hvernig myndi slík heildarendurskoðun líta út? Það kemur fram í þingsályktuninni sem var samþykkt 2012. Nú segir hæstv. forsætisráðherra Bjarni Benediktsson að við þurfum það ekki, það liggi svo mikið af gögnum fyrir. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á bara að fara í gegnum þau gögn öllsömul. Það mun taka mikinn tíma. Við gætum kallað til sérfræðinga o.s.frv. til að aðstoða okkur við þá vinnu og munum þurfa að gera það. En hvað gerist ef við skipum rannsóknarnefnd um heildarrannsókn á einkavæðingu þessara þriggja banka? Ef þetta liggur allt hvort eð er fyrir er lítið starf fyrir þá rannsóknarnefnd. Þá er þetta bara „copy/paste“ úr öllum þeim skýrslum og rannsóknum sem farið hafa fram. Þá er það ekki mikill kostnaður, en hæstv. forsætisráðherra bar fyrir sig kostnað í þessu máli, það kostar svo mikið, það er búið að leggja svo mikinn pening í þessar rannsóknir. Lýðræði kostar, eftirlit kostar. En það kostar miklu meira að vera ekki með eftirlitið og lýðræðið. Miklu, miklu, miklu meira.

Mér finnst einboðið að við fylgjum þingsályktuninni frá 2012 og förum í þessa heildarendurskoðun, sér í lagi vegna tilgangsins með henni. Hver var hann? Tilgangurinn með henni stendur í greinargerðinni:

Að veita heildstætt yfirlit um þá stefnumörkun, ákvarðanatöku og framkvæmd sem réð för við sölu hlutabréfa í bönkunum þremur …

Svo hvað? Þetta er mikilvægt.

… svo draga megi lærdóm af ferlinu við mótun stefnu um hvernig best verði staðið að sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum í framtíðinni.

Þetta er „basic“. Nú vantar mig þýðingu til að fylgja þingsköpum alveg. (Gripið fram í.) Þetta er grundvallaratriði. Nákvæmlega. Ég skil ekki hvað menn eru að þráast við. Hæstv. fjármálaráðherra Benedikt Jóhannesson var afgerandi í því að þetta þyrfti að gera. Ég geri því ekki ráð fyrir öðru en að þingflokkur Viðreisnar sé sammála í því máli og hafi rætt það sín á milli og þá er meiri hluti fyrir því í þinginu.

Svo er annað áhugavert sem við vorum að ræða, þ.e. hvort við getum ekki hent í eina skoðanakönnun, Gallup, það kostar um 150 þús. kr., til að fá það á borðið hvort landsmenn eru ekki líka hlynntir því að fá þessar upplýsingar. Við getum tekið okkur saman, þeir þingflokkar sem hafa áhuga á að láta þetta gerast, og fengið afgerandi niðurstöðu. Vilja landsmenn ekki fá rannsókn á því hvernig einkavæðingarferlið var þannig að við förum ekki að gera sömu mistök í þessu ferli, þannig að við getum lært af því og gert þetta vel, haft þetta gegnsætt, haft þetta opið án tortryggni, hafið yfir gagnrýni og fengið gott verð og góða eigendur fyrir þessa banka? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)