146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um kaup í Búnaðarbankanum.

[11:32]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Í gær og í dag og í þessari umræðu um einkavæðingu Búnaðarbankans erum við að verða vitni að stórkostlegri blekkingu og svindli á íslensku samfélagi í heild sinni. Ég verð að segja fyrir mig persónulega fyrir mitt leyti, hafandi verið í málaferlum við íslenska banka í nokkur ár og hingað til haft rétt fyrir mér í öllum atriðum, kemur mér þetta ekki mikið á óvart. Ég velti því alltaf reglulega fyrir mér hver hvatinn er á bak við blekkingu og svindl sem drífur fólk áfram, þennan einlæga ásetning að blekkja. Eftir að hafa lesið mig hratt í gegnum skýrslu rannsóknarnefndar um einkavæðingu Búnaðarbankans velti ég fyrir mér hvort okkur sé viðbjargandi.

Til að gera langa sögu stutta og til að lýsa mínum skilningi þá leiðir þessi lestur í ljós þá ömurlegu stöðu að þeir sem trúað var fyrir því að selja bankana breyttu leikreglum eftir að lagt var af stað. Þeir sættu sig við hálfkveðna vísu erlendra ráðgjafa. Þeir gengu ekki á eftir frekari upplýsingum. Þeir gáfu viðbótarfresti ofan á viðbótarfresti og bera svo enga ábyrgð á neinu þegar upp er staðið.

Mig langar, virðulegi forseti, að gera þessi vinnubrögð að umtalsefni hér, þau vinnubrögð sem íslenskir embættismenn í einkavæðingarnefnd og íslenskir stjórnmálamenn viðhöfðu eru vinnubrögð sem aftur og aftur hafa komið okkur á óvart, aftur og aftur hafa komið okkur í ógöngur. Ég veit raunar ekki hvort um er að ræða vanhæfni eða spillingu. Það virðist í þessu tilfelli ekkert benda til þess að menn hafi vitað að einn eigenda hafi fengið þýskan banka til að leppa fyrir sig kaupin á stórum hlut í Búnaðarbankanum. En það er vegna þess að engum datt í hug að spyrja réttu spurninganna eða vegna þess að menn ákváðu að snúa blinda auganu að því sem þarna átti sér stað.

Við þekkjum það úr lögfræðinni að fyrir dómi snýst aðferðafræðin um það sem hægt er að sanna, ekki endilega sannleikann sjálfan, því hann er ekki alltaf aðgengilegur. Hvað ef menn vilja ekki segja satt og rétt frá og bera við minnisleysi eins og gerðist í skýrslutöku þessarar rannsóknarnefndar? Hvað ef upplýsingar um hið sanna liggja ekki fyrir? Ef sönnunargögnin eru ekki fyrir hendi þá snúast mál ekki um sannleikann heldur það sem hægt er að sanna. Hvort það er það sem blasir við okkur hér, virðulegi forseti, veit ég ekki.

Í skýrslunni kemur fram að einkavæðingarnefnd hafi beinlínis breytt leikreglum eftir á. Svo virðist sem S-hópurinn sem keypti Búnaðarbankann hafi fengið að skrifa leikreglurnar sjálfur eftir á. Þannig blasir þetta við mér. Það gerði hann með því að kynna þá hugmynd að fá franskan banka til að vera kjölfestufjárfesti með sér í gegnum íslenska hlutafélagið Eglu. Svo virðist reyndar að aðkoma þessa franska banka hafi ekki verið annað en einleikur eins eða tveggja starfsmanna hans þar sem a.m.k. annar þeirra hætti störfum hjá bankanum í miðjum leik, stofnaði ráðgjafarfyrirtæki og fór að leita að öðrum fjárfesti til þess að koma inn í hið íslenska hlutafélag.

Einkavæðingarnefnd eða íslensk stjórnvöld höfðu ekki skrifað inn í matsferlið að erlend aðkoma að kaupunum skilaði bjóðendum sérstöku vægi. Svo gerist það einhvers staðar á fundi að aðkoma hins franska banka er kynnt og eftir það verður kúvending af hálfu einkavæðingarnefndar sem leggur upp frá því ofuráherslu á að stór fjárfesting erlendrar fjármálastofnunar sé ein af grundvallarforsendunum. Hver tók þá ákvörðun og á hvaða forsendum?

Ég minnist þess að á þessum tíma var talsvert fjaðrafok yfir því að einn fulltrúi í einkavæðingarnefnd sagði sig úr nefndinni. Skýringar nefndarmannsins voru þær að hann hefði aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum. Þessi tiltekni nefndarmaður treysti sér ekki til þess að taka þátt í þessum störfum á þeim forsendum sem lagt var upp með og sagði skipta sköpum fyrir einkavæðingarnefndina að unnið væri eftir skýrum reglum og með hlutlægum og gagnsæjum hætti.

Nú fimmtán árum síðar erum við enn að glíma við sambærileg mál sem tengjast vinnubrögðum þeirra sem við treystum til stórra verka. Það er einhvern veginn eins og það stingi sér niður alvarleg siðferðisvilla þegar bankar eru annars vegar í þessu samfélagi. Borgunarmálið er dæmi um svona vinnubrögð þar sem annaðhvort er um að ræða stórkostlega vanhæfni þeirra sem eiga að standa vaktina fyrir okkur eða alvarlega spillingu sem ekki hefur tekist að sanna.

Hvað ætlum við að gera við þær upplýsingar núna árið 2017 sem blasa hér við þegar við erum að undirbúa okkur undir það að selja mögulegan hlut í Landsbankanum aftur, selja Íslandsbanka og þann hlut sem ríkið á í Arion banka? Það sem lesa má um í þessari skýrslu má ekki endurtaka sig. Við verðum að setja skýrar leikreglur, búa til gagnsætt ferli og fylgja því. Að öðrum kosti verðum við hér að fimmtán árum liðnum að ræða nákvæmlega sömu stöðu.

Það tók menn fimm ár að koma okkur á hausinn með fimmta stærsta gjaldþrot heimssögunnar og holskeflu af málaferlum í kjölfarið vegna lögbrota sem framin voru innan bankans og holskeflu málaferla sem stór hluti þjóðarinnar þurfti að standa í til að sækja eigur sínar til baka. Það má ekki gerast aftur.

Nýverið bárust fregnir af sölu í hlut í Arion banka. Svo virðist sem þær leikreglur sem við höfum sett okkur nái ekki nógu vel utan um það sem þar gerðist. Erlendir vogunarsjóðir sem skáka í skjóli leyndar og enginn veit raunverulega hverjir eru eiga nú orðið hlut í bankanum. Ég spyr mig, virðulegi forseti, hvort við getum ekki gert betur á þeim vettvangi. Getum við skrifað reglurnar þannig að við getum alltaf í öllum tilvikum krafist þess að vita hverjir eiga alla hluti í samfélagslega mikilvægum stofnunum eins og bönkum?

Sópum því ekki undir teppi að svikin felast ekki síður í vinnubrögðum þeirra sem við treystum og treyst var fyrir mikilvægum verkefnum, að sjá til þess að leikurinn færi vel fram, og fóru ekki vel með það traust. Ég vil taka það fram og ég tek það sem dæmi að það sem gerðist líka í Borgunarmálinu. Ætli sé í raun og veru einhver munur á Borgunarmálinu og Búnaðarbankamálinu? Mögulega verður ekki hægt að sanna það.

Virðulegi forseti. Ég spyr að lokum hvort við getum ekki sameiginlega gert betur? Ég mun leggja mitt af mörkum við að tryggja að svo verði. Ég hef engan áhuga á að alþingismenn standi hér eftir fimmtán ár og ræði nákvæmlega sömu hluti og við gerum í dag.