146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um kaup í Búnaðarbankanum.

[11:44]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla með leyfi forseta að lesa úr bók sem ég fann og hefst nú lesturinn:

„Ég heyri sagt að þú hafir keypt banka, Jón Hreggviðsson, sagði Arnas Arnæus. Er það rétt? Jón Hreggviðsson hófst við í sæti sínu og ansaði: Hef ég keypt banka eða hef ég ekki keypt banka. Hver hefur keypt banka og hver hefur ekki keypt banka? Hvenær kaupir maður banka og hvenær kaupir maður ekki banka? Fari í helvíti sem ég keypti banka. Og þó?“

Jón Hreggviðsson var aldrei viss um hvort hann hefði keypt banka eða ekki keypt banka og það eru engar vísbendingar um að Jón Hreggviðsson hafi keypt banka. Þetta er alveg sama staðan og Hauck & Aufhäuser er í í dag. Hauck & Aufhäuser keypti ekki banka árið 2003.

Í gær og í dag hefur ýmissa spurninga verið spurt. Það er rétt að halda áfram að spyrja, en það er líka rétt að horfa til baka og rifja upp nokkra atburði.

Það gerist 16. janúar árið 2003 að þessi tiltekni banki, Búnaðarbanki, er seldur með fréttatilkynningum. Þar er það skráð vel og rækilega að þessi þýski banki, Hauck & Aufhäuser, er kaupandi. Það birtist fréttatilkynning bæði frá svokölluðum S-hóp og bankanum sjálfum sérstaklega, þar sem væntanlegur stjórnarmaður í Búnaðarbankanum, Peter Gatti, lýsir því hvursu góð fjárfesting þetta er. Því er jafnframt lýst í þessari fréttatilkynningu hvar bankinn starfi, hann sé m.a. með starfsemi í Sviss og Lúxemborg.

Einkavæðingarnefnd hafði skamman tíma til þess að samþykkja þennan banka, ekki nema nóttina, en það er t.d. einfalt að spyrja: Hvaða starfsemi var þessi banki með í Sviss og Lúxemborg? Samkvæmt skýrslum bankans fyrir 2003 þá voru það nokkur þúsund evrur, þannig að þessi fréttatilkynning ýkir um gæði þessa banka. Ég segi ósköp einfaldlega að einkavæðingarnefnd virðist hafa haft það „mission“, þann tilgang, að selja Búnaðarbanka erlendum banka. Það er í sjálfu sér gott og gilti að tengja íslenskt fjármálakerfi alþjóðlegum bönkum ef rétt er gert. En þar var ekki spurt spurninga. Næsti aðili sem á að spyrja er náttúrlega Fjármálaeftirlitið. Menn hafa spurt hér margoft: Var regluverkið í lagi þá eða núna? Ég segi ósköp einfaldlega: Regluverkið var í lagi á þeim tíma. Sá sem hér stendur starfaði í bankaeftirliti Seðlabankans árið 1995 og 1996. Á þeim árum var verið að innleiða svokallaða CAD-hugsun, Capital Adequacy Directive, þar sem farið er í eiginfjárútreikning á bönkum.

Sú aðferðafræði sem ég beitti og hugsaði árið 2005, 2006 svaraði þeim spurningum sem við erum allt í einu að fá svar við núna, að þessi erlendi banki keypti ekki. Þarna bregst Fjármálaeftirlitið. Síðan á miðju ári 2003 þegar Búnaðarbanki og Kaupþing sameinast þá bregðast endurskoðendur vegna þess að þarna er 100 milljón dollara lán inni. Hver er skuldari að því og hvað er undirliggjandi veð? Egla er skuldari, undirliggjandi veð eru hlutabréf í Kaupþingi.

Þetta 100 milljón dollara lán virðist mér samkvæmt öllum upplýsingum aldrei hafa verið greitt heldur hafa þeir sem um véluðu vélað út aðra tæpa 100 milljón dollara út úr kerfinu. Þarna eru horfnir 200 milljón dollarar út úr bankakerfinu. Það eru einhverjar fjárhæðir, menn geta reiknað það út í dag. Gengið er nú svo misjafnt, það getur vel verið að þetta sé meira eða minna í dag en í gær, það skiptir ekki máli.

En horfum þá til annarra stærða.

Þessar fréttatilkynningar eru ótvíræðir gerningar í markaðsmisnotkun. Að hverju beinist markaðsmisnotkunin? Hún beinist í rauninni ekki að félaginu, hún beinist að heilu samfélagi. Þá erum við hér með úttekt á fjárfestingu lífeyrissjóða í fjórum bindum, ég er aðeins með eitt hér. Mér virðast lífeyrissjóðir hafa tapað á Kaupþingi og tengdum fyrirtækjum sem nemur u.þ.b. 150 milljörðum. Hafi ríkið fengið sitt fyrir bankann þá hefur samfélagið tapað í eftirlaunum hjá lífeyrissjóðum. Þannig að tjónið er í heilu samfélagi.

Síðan gerist það að Ríkisendurskoðun kemur að þessu máli árið 2006. Hún hefur engan áhuga á því. Hún hefur fyrst og fremst áhuga á því að niðurlægja þann borgara sem kvartar. Það er óþarfi að ræða þá pappíra sem frá Ríkisendurskoðun koma, það er kannski ástæða til þess að ræða við Ríkisendurskoðun í dag eða fyrrverandi ríkisendurskoðanda sem að því máli stóð.

En hvað ber að gera núna? Við stöndum núna andspænis mikilli skýrslu og ýmsum gögnum. Nefndin sem um þetta mál fjallaði var mjög afmörkuð, leitaði svara við þeirri spurningu hvernig að þessu var staðið og komst í ákveðin gögn sem leystu úr miklu. Við höfum horft hér á það sem heitir á sænsku „företagstömning“, ég hef kallað þetta á íslensku fyrirtækjatæmingu, þ.e. þegar fyrirtæki er tæmt, strippað. Og hvað á að gera þá? Hverjir nutu þess að bankinn var strippaður? Þarna koma tveir til greina, sem tóku á móti þessum tæpu 100 milljörðum, það er fyrirtæki tengt aðalgeranda málsins og svo er annað, Dekhill, sem enginn veit hver er ávinningshafi að. Væntanlega hafa ríkisskattstjóri og skattrannsóknarstjóri getu til þess að afla þessara upplýsinga. Það verður fróðlegt að fá það fram.

Spyrjum um fyrningu í þessu máli. Sagt er að þetta mál sé fyrnt. Hvenær byrjar fyrningarfrestur? Ég tel nú að fyrningarfestur hefjist þegar menn hafa viðhlítandi gögn í höndum en ekki þegar glæpur er framinn. Þetta er samfelldur glæpur. Í mínum huga er þetta samfelldur glæpur frá 16. janúar árið 2003 til 29. mars 2017. Þá er þetta loksins upplýst. Þá vita allir. En ef menn vilja rannsaka það þá tel ég nauðsynlegt að rannsaka það hvernig skuldaskilum tiltekinna einstaklinga var háttað við viðkomandi banka, t.d. eins og í Landsbankanum. Aðaleigandi þar. Þar hef ég undir höndum gögn þar sem endurskoðendur falsa upplýsingar við gerð ársreiknings og sömuleiðis skuldauppgjör þess einstaklings sem um er fjallað í þessari skýrslu og vélaði um einkavæðingu Búnaðarbankans.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.