146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um kaup í Búnaðarbankanum.

[11:53]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Skýrslan sem birt var í gær felur í sér þungan áfellisdóm. Hún er afdráttarlaus í meginniðurstöðum sínum: Íslensk stjórnvöld, og um leið íslenskur almenningur, voru blekkt. Rannsóknarnefnd Alþingis telur hafið yfir allan vafa að Hauck & Aufhäuser var ekki raunverulegur fjárfestir í þessum viðskiptum, því hafi farið fjarri og hafi í reynd aldrei staðið til. Í tengslum við kaupin hafi verið gerðir baksamningar með leynd með þríhliða samvinnu fulltrúa Hauck & Aufhäuser, starfsmanna Kaupþings hf. og dótturfélags þess, Kaupthing Bank Luxembourg og manna sem komu að því verki af hálfu og í þágu Ólafs Ólafssonar, þáverandi forstjóra Samskipa, stjórnarmanns í Keri hf. og helsta forsvarsmanns S-hópsins.

Samhliða þessum baksamningum var búið svo um hnúta að aflandsfélagið Welling & Partners, sem Ólafur Ólafsson var raunverulegur eigandi að, nyti alls hugsanlegs fjárhagslegs ávinnings af þeim hlutum en ekki málamyndaeigandinn, Hauck & Aufhäuser. Rannsóknarnefndin telur að gögn sýni svo ekki verði um villst að Ólafur Ólafsson hafi ekki aðeins verið upplýstur um þessa baksamninga og aðrar ráðstafanir þeim tengdum, heldur hafi hann frá upphafi átt að njóta og notið í reynd fjárhagslegs ávinnings af þeim. Fram kemur í skýrslunni að samanlagður hagnaður aflandsfélags Ólafs Ólafssonar, Welling & Partners, hafi numið að lágmarki 102 milljónum dollara. Rannsóknarnefndin bendir á að áhrif hinna leynilegu baksamninga hafi verið þau að það hafi verið víðs fjarri að Hauck & Aufhäuser væri raunverulegur fjárfestir í bankanum, beint eða óbeint. Það sé þvert á það sem haldið var fram, bæði gagnvart stjórnvöldum og fjölmiðlum. Fram kemur að ekkert í gögnum rannsóknarnefndar bendi til þess að nefndarmenn í framkvæmdanefnd um einkavæðingu, starfsmenn nefndarinnar, ráðherrar sem sátu í ráðherranefnd um einkavæðingu eða raunar nokkur annar fulltrúi eða starfsmaður íslenskra stjórnvalda og stofnana hafi á nokkru stigi haft vitneskju um hver aðkoma Hauck & Aufhäuser að kaupunum á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum hafi verið í reynd. Þá bendi ekkert til þess að neinn þessara aðila hafi haft hugmynd um að fjárhagslegur ávinningur af viðskiptunum hafi frá upphafi verið áskilinn og í reynd á endanum runnið til aflandsfélags í eigu Ólafs Ólafssonar og síðar aflandsfélagsins Dekhill Advisors Ltd.

Rannsóknarnefndin segir í lok skýrslu sinnar, með leyfi forseta, „[að] ekki verði um villst að íslensk stjórnvöld hafi á sínum tíma verið blekkt um aðkomu Hauck & Aufhäuser að þeirri einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands hf. sem lokið var með kaupsamningi 16. janúar 2003. Á sama hátt varpar skýrsla þessi að mati nefndarinnar skýru og ótvíræðu ljósi á hverjir stóðu að þeirri blekkingu, komu henni fram og héldu svo við æ síðan, ýmist með því að leyna vitneskju sinni um raunverulega aðkomu Hauck & Aufhäuser eða halda öðru fram gegn betri vitund.“

Herra forseti. Allt er þetta með hinum mestu ólíkindum. Hér er hulunni lyft af blekkingarvef sem spunninn var með óprúttnum hætti. Fyrstu viðbrögð eru auðvitað reiði og hneykslan. Hvernig gat þetta eiginlega gerst? Hvaða aðstæður voru fyrir hendi sem gerðu þetta mögulegt? Hvar var eftirlitið? Hverjir voru ferlarnir sem unnið var eftir? Hvaða þátt áttu stjórnmálamenn þessara tíma í því að skapa það andrúmsloft að gera þetta mögulegt? Það er óhjákvæmilegt að líta til þess að hér hafa pólitísk öfl tengst viðskiptalífinu sterkum böndum, beint og óbeint. Við lestur skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna árið 2008, sem skilað var 2010, eru skýrar vísbendingar um að pólitísk afskipti og hin gamla óskráða helmingaskiptaregla hafi svifið þarna yfir vötnum. Var það e.t.v. ástæða þess hve stjórnvöld virðast hafa verið værukær og lagt litla áherslu á að komast til botns í málum og nánast treyst í blindni á orð kaupenda og ráðgjafa sinna, ferlið og þau skilyrði sem lögð voru til grundvallar kaupunum voru mjög á reiki og tóku breytingum í sölu- og matsferlinu?

Herra forseti. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis mun fara gaumgæfilega yfir skýrsluna. Af henni verður að draga lærdóm. Þessi saga má ekki endurtaka sig. Tengsl stjórnmálaflokka og fjármálaafla er hættuleg blanda. Það verður að vera hafið yfir allan vafa að hlutlæg vinnubrögð ráði för, það þarf gagnsæi, opin ferli og sterkar eftirlitsstofnanir. Fyrir því viljum við hjá Viðreisn beita okkur af fullum þunga. Ég vil aldrei þurfa að lesa skýrslu af þessu tagi aftur.