146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um kaup í Búnaðarbankanum.

[12:22]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég fagna þessari skýrslu og það gleður mig að hún er vönduð, skýr, vel rökstudd og niðurstöðurnar afdráttarlausar. Alþingi getur vel við unað þá ákvörðun sína að hafa sett þetta mál af stað hér á síðastliðnu vori. Niðurstöðurnar eru auðvitað með endemum hvað varðar þær svívirðilegu blekkingar, það baktjaldamakk og þá grímulausu græðgi, mér liggur við að segja samviskulausu græðgi, sem birtist í atferli manna sem þarna eiga í hlut. Það má segja að hér sameinist og birtist allt það versta sem nýfrjálshyggjugræðgiskapítalisminn, sem Ísland varð að bráð, hefur í för með sér. Allar svívirðilegustu hliðarnar á því andrúmslofti, hugarfari og innræti sem menn bjuggu yfir og hegðuðu sér samkvæmt á þeim tíma.

Það sem eftir situr er hins vegar margt, þó að niðurstöðurnar séu skýrar hvað varðar þennan afmarkaða þátt. Eftir stendur að svara þeirri spurningu: Hverju sætir að aðkoma hins erlenda banka var aldrei könnuð með trúverðugum hætti, jafn mikið og lagt var upp úr henni? Hverju sætir að framkvæmdanefnd um einkavæðingu lét bjóða sér óljósar staðfestingar og nafnlausar tilkynningar um að í vændum væri einhver erlendur virtur fjárfestir? Hverju sætir að Fjármálaeftirlitið sannreyndi aldrei að um væri að ræða hæfan eiganda að stórum ráðandi eignarhlut í banka? Hverju sætir að seljandinn sjálfur, ríkið, ráðherra fyrir hönd ríkisins, sannreyndu þetta ekki heldur?

Mikið var upp úr þessu lagt og ósvífnin kristallast kannski í því að kaupendurnir hömpuðu sérstaklega þeim jákvæðu fréttum að nú væri, eins og þeir sögðu, traustur erlendur banki að taka þátt í að fjárfesta í íslenskri fjármálastofnun, sem hlyti að teljast mikil tíðindi. Með leyfi forseta, vitna ég í skýrsluna á bls. 39:

„Búnaðarbankinn kemur til með að njóta þekkingar, reynslu og viðskiptasambanda þýska bankans …“

Og ekki sé síður mikilvægt að „með eignarhaldi þýska bankans í Búnaðarbankanum skapast tengsl sem íslensk fyrirtæki geta notfært sér til að styrkja starfsemi sína og sókn á erlendum mörkuðum“.

Hvað varð nú úr þessu öllu saman? Nei, bankinn var aldrei þarna. Hann lánaði nafn sitt fyrir ríflega þóknun og er allt saman svívirðilegt hvernig sem á það er litið.

Minnumst þess að það var fleira gagnrýnt í þessu ferli en bara þessi afmarkaði þáttur sem nú hefur verið leiddur í ljós. Allt frá byrjun stóðu stjórnvöld illa að þessum málum. Á tíunda áratugnum er byrjað á því að breyta ríkisbönkunum í hlutafélög. Þá er sagt í þessum sölum: Þetta er bara formbreyting. Í næstu umferð er byrjað að selja úr ríkisbönkunum og sagt: Nei, bara að minnka eignarhlut ríkisins. Ráðandi hlutur áfram í höndum ríkisins. Þannig er það.

Í þriðja lagi eru hér áralangar umræður um mikilvægi þess að tryggja dreifða eignaraðild í bönkunum. Þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, lýsti sig eindreginn stuðningsmann þess. Við fluttum hér frumvarp, ræðumaður og fleiri, um að setja ætti þak á hámarkseignarhlut í bönkum, 8% eða svo. Stjórnvöld töluðu þannig að þau væru þessu hlynnt og þetta ætti að skoða. Svo er allt í einu, þegar það hentar af pólitískum ástæðum, blaðinu snúið við. Þá er orðið svo mikilvægt að fá kjölfestufjárfesti að bankanum, einn stóran, ráðandi aðila sem beri aðalábyrgð á bankanum. Þá er það orðið aðalatriðið. Svo kemur mantran um að það sé svo mikilvægt að fá erlendan aðila að bankanum eða a.m.k. erlent fjármagn inn í landið til að borga fyrir kaupin.

Allt er þetta svikið. Allt er þetta í skötulíki.

Þarf ekki að rannsaka sölu Landsbankans? Var okkur ekki líka sagt að það væru að koma erlendir peningar til að kaupa hann? En hvað leiddi skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis í ljós? Það var allt saman froða. Þeir tóku lán hver hjá öðrum, einkavæddu bankarnir, til að borga hlutinn og sum þeirra lána voru aldrei greidd. Allt saman brást þetta.

Það þarf tafarlaust að hrinda í framkvæmd samþykkt Alþingis frá 2012 (Forseti hringir.) um almennilega rannsókn á þessu öllu saman og stjórnvöld eiga að setja á ís öll áform um frekari einkavæðingu á meðan. (Forseti hringir.) Ekki ofbjóða almenningi á Íslandi (Forseti hringir.) ofan í það sem hér er komið á blað.