146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[12:45]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég er nefnilega sammála því sem kemur fram í orðum hans og ég kom inn á. Kannski ætti ekki að koma mörgum á óvart að ég sé sammála sjálfum mér en það er ekki alveg sjálfgefið á þessum síðustu og verstu tímum. Ég tel að þarna sé grundvöllur og forsenda fjármálastefnunnar einfaldlega brostin. Ef menn ætli að fara í allar þær varúðarráðstafanir sem boðaðar eru hér á tyllistundum, liggur mér við að segja, þegar kastljósi fjölmiðlanna er að þeim beint, eins og hæstv. fjármálaráðherra áðan, um að öll skref í þessu ferli verði stigin af sérstakri varúð, þá geti það þýtt að tekjuforsendur fjármálastefnunnar séu algerlega brostnar. Við skulum ekki gleyma því að eitt af því sem hæstv. fjármálaráðherra gerði sérstaklega hvað varðar þessa fjármálastefnu var að setja sjálfum sér og okkur þak á útgjaldahliðina, 41,5% af vergri landsframleiðslu. Ef eitthvað brestur öðrum megin með þetta þak lít ég svo á að það þurfi einfaldlega að taka upp fjármálastefnuna og endurskoða.

Ég hef áður lýst í máli mínu efasemdum um allar þessar forsendur. Það er rétt hjá hv. þingmanni að einkavæðingu hefur mjög oft borið á góma, nánast sama hvaða ráðherra hefur tekið til máls. Nánast hver og einn þeirra hefur talað um einkavæðingu á einhverjum sviðum. Er ekki bara ráð að við sem Alþingi tökum höndum saman og setjum um þetta einhvers konar reglur og starfshóp og vinnum saman að því, svo við þurfum ekki að standa hér aftur og ræða (Forseti hringir.) einkavæðingu sem hefur farið algerlega forgörðum?