146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[12:47]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P) (andsvar):

Ég tek heils hugar undir vangaveltur hv. þingmanns. Það sem ég hefði verið til í að sjá er einfaldlega kalt mat á því hversu mikinn arð við gætum með skynsamlegum hætti tekið út úr bönkunum til margra ára og hvað tæki mörg ár að ná söluandvirði miðað við að einkavæðingin hefur yfirleitt snúist um að við einhvern veginn klúðrum eignunum frá okkur og síðan þremur árum seinna er búið að margfalda þær eða fimmfalda í verði. Fólk situr eftir með sárt ennið. Svo er einhver karl, ónefndur maður einhvers staðar á einhverjum eyjum, sem telur alla peningana og brosir eyrna á milli. Getum við ekki tekið þennan arð út úr bönkunum? Er ríkið ófært um að taka arð út úr eignunum sínum?