146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[12:48]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kom inn á einkavæðingarþátt þessa máls. Það er vel til fundið. Það er einkavæðingargrunnur undir þessu að hluta til og áform um að selja hluti ríkisins og nota til að greiða niður skuldir. Það hefur verið umræða sem stjórnarliðar eða tengdir aðilar hafa kveikt að undanförnu, m.a. um fyrirtækin Isavia eða hluta úr starfsemi Isavia og jafnvel Landsvirkjun.

Hv. þingmaður veltir upp því sem er alltaf mjög áhugavert í þessari umræðu, þegar kæmi t.d. að Isavia, sem er auðvitað fráleitt frá þeim sjónarhóli að þar er um mikilvægasta samgöngumannvirki landsins að ræða sem landið á engan annan kost en að passa upp á að sé til staðar og í rekstri; og þannig lagað séð alltaf ábyrgt á bak við, jafnvel þótt einkaaðilar fengju að fleyta rjómann af einhverjum rekstri. En það er akkúrat það. Meiningin er að selja ábatasömustu hlutana út, afhenda einkaaðilum það gróðavænlega í þessari starfsemi en skilja ríkið eftir með restina. Sem er minna, eða ekki neitt, upp úr að hafa. Eða þarf að borga með.

En því miður, þannig er þetta alltaf. Hugsunin er einmitt sú að einkaaðilarnir sækja inn á þau svið hins opinbera rekstrar og á formi sem gerir mönnum kleift að græða og draga arð, skilja hitt eftir. Hugmyndin um að bera málið undir þjóðina er góðra gjalda verð. Eins held ég að við hér á Alþingi hljótum að þurfa að skoða hvort Alþingi á að taka í taumana og setja stopp. Bara frysta þessi mál í bili, m.a. í ljósi nýlegra atburða.

Nú veit ég ekki hvort hv. þingmaður var á ársfundi Samtaka atvinnulífsins í gær en það á erindi hingað inn í þessa umræðu sem hæstv. forsætisráðherra Bjarni Benediktsson sagði þar. Hvað var hæstv. forsætisráðherra að segja? Hann var að barma sér. Hann var að væla. Og þóttist sjálfsagt vera í góðum félagsskap til þess. Undan því hve þungt væri fyrir fæti með einkavæðingu og einkarekstur á Íslandi. Hann var að kvarta undan því. (Forseti hringir.) Það voru ekki efasemdirnar um að stefnan væri rétt. Nei, hann talaði um að það þyrfti hugarfarsbreytingu hjá þjóðinni. Þannig að ég held að við þurfum að vera vel á verði. Þessi öfl hafa ekkert lært.