146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[13:32]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Við ræðum fjármálastefnu þessarar ríkisstjórnar. Hún ber þess merki að ríkisstjórnin hefur engan áhuga á að varðveita raunveruleg verðmæti þjóðarinnar og auka virði þeirra fyrir komandi kynslóðir. Mér þykir augljóst af lestri þessarar stefnu að ríkisstjórnin skilur ekki önnur verðmæti en tölur á blaði eða seðla í veski.

Þau málefni sem skipta almenning hvað mestu máli, og voru raunar bróðurpartur kosningaloforða Bjartrar framtíðar og Viðreisnar, eru ekki á áberandi stað hér. Hér finnum við engar sviðsmyndir, engan leiðarvísi, engar varúðarspár. Við finnum ekkert um húsnæðismál, heilbrigðiskerfið, menntakerfið eða vegakerfið, sem eru hin raunverulegu verðmæti þjóðarinnar sem ég vísaði í. Við finnum bara spennitreyju nýfrjálshyggjunnar sem ætlar okkur að greiða fyrir þessi verðmæti okkar með vegatollum, bílastæðagjöldum. Hvað verður næst? Klósettgjöld, flugvallagjöld, spítalagjöld, innviðagjöld hvers konar? Ef þeirri stefnu sem finna má hér verður fylgt áfram getum við gert ráð fyrir því þess vegna að farið verði að rukka meira fyrir háskólana okkar, fyrir spítalavistina, og við höldum áfram að greiða úr eigin vasa sem við þó raunar höfum gert með því að greiða skatta, með því að leggja okkar af mörkum í þessu samfélagi. Nú eigum við líka að greiða úr eigin vasa fyrir viðhald veganna okkar. Ég spyr mig: Á ekki fyrir löngu að vera búið að gera það? Erum við ekki fyrir löngu búin að greiða fyrir það margfalt? Hvernig stendur á því að innviðir okkar eru að molna niður og þessi ríkisstjórn hefur ekkert um það að segja nema tölur á blaði og prósentuhlutföll?

Stefnu stjórnvalda er lýst í skjali þar sem fram kemur hvernig þau hyggjast ráðstafa fjármunum þess sama almennings og mér verður svo tíðrætt um hérna. Henni er ekki ætlað að gefa almenningi nein skilaboð um það hvernig ríkisstjórnin hyggist hlúa að þessum grunnstoðum samfélagsins: Menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu, vegakerfinu eða húsnæðismálum.

Það er lítið gagn í að hafa fínan lánshæfispappír frá Standard & Poor´s ef engin eru húsin til að hlýja sér í, engir skólarnir til að læra að lesa í svona fínan pappír, ef heilsu manna fer ört hrakandi hér á Fróni vegna hrynjandi heilbrigðiskerfis. Þessi stefna leggur áherslu á að lækka vexti á ríkisstjórn en gerir það með því að senda reikninginn á komandi kynslóðir. Því að vextir eru til í annars konar formi en sem tölur á blaði. Við fáum vexti inn í framtíðina með því að horfa á heilbrigðiskerfið okkar, menntakerfið, vegina og aðra mikilvæga innviði samfélagsins, morkna niður. Það eru vextir að þurfa svo eftir áratug eða fimm ár, eða vonandi bara eftir nokkur ár ef við losnum við þessa ríkisstjórn hérna, að byggja upp það sem nú er að molna niður. Viðhald er miklu ódýrara en viðgerð á einhverju sem nú þegar er ónýtt, eða uppbygging á nýju, ef því er að skipta.

Markmiðið með þessari stefnu er aðhald á uppgangstímum. Í staðinn fyrir að fjárfesta í framtíðinni, fjárfesta í komandi kynslóðum og rétti þeirra til að eiga hér góða innviði rétt eins og við höfum fengið að njóta góðs af hingað til, er því hafnað og reikningurinn sendur inn í framtíðina. Komandi kynslóðir skulu borga brúsann af morknuðum vegum, ónýtum spítölum og lélegu menntakerfi. Það eru líka vextir, frú forseti. Það eru vextir að þurfa að skjóta inn í framtíðina greiðslu fyrir uppbyggingu á innviðum okkar.

Þess vegna finnst mér leiðinlegt að ríkisstjórnin sé ekki hér til að ræða við okkur um hvernig hún sér þetta fyrir sér, að hún ætli ekki að setja vexti á komandi kynslóðir, að hún sé ekki að taka frá þeim réttinn til að lifa hér mannsæmandi lífi, með því að beita aðhaldi í ríkisrekstri, nota tölur á blaði til að skera niður, byggja ekki upp. Því að tölur á blaði og seðlar í veski eru ekki raunveruleg verðmæti þessa lands. Raunveruleg verðmæti þessa lands felast í fólkinu sem hér býr og þeim kerfum sem við kjósum að hafa til að hugsa hvert um annað.

Þessi stefna segir okkur að þessi ríkisstjórn hefur engan hug á að hlúa að þeim kerfum, þeim sem hér búa. Hún hefur miklu meiri áhuga á að fá fallegt bankayfirlit og fallegt yfirlit frá einhverjum lánshæfismatsstofnunum sem lækka einhverja höfuðstóla, sem vissulega er allra góðra gjalda vert. En það er alger óþarfi að flýta sér svona mikið eins og þessi stefna leggur til. Það er miklu meiri þörf á að flýta sér í að fjárfesta í framtíðinni. Framtíðin er ég og framtíðin eru allir aðrir sem búa hér.

Ég verð að segja fyrir mitt leyti að það er ekki freistandi fyrir flesta Íslendinga hér á landi að búa hér í kerfi þar sem flestir innviðir sem eiga að sjá til þess að við höfum það sæmilega gott hérna séu að hruni komnir. Þeir þarfnast viðhalds núna. Þeir verða ónýtir bráðum. Það verður miklu dýrara að byggja þá upp þegar þeir verða ónýtir því að þá þurfum við að byggja frá grunni í staðinn fyrir að viðhalda og byggja aftur upp það sem við eigum nú þegar.

Sömuleiðis verður að segjast að sveiflujöfnunarhlutverk ríkissjóðs fær hér einhvers konar stall en fær lítið svigrúm í spennitreyju nýfrjálshyggjunnar, en eins og ég minntist á er ekki að sjá að þessi ríkisstjórn ætli að beita sér í þessu sveiflujöfnunarhlutverki sínu. Hún setur sér allt of strangar reglur, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon minntist hér á í gær. Það eru keðjur og axlabönd og belti og ég veit ekki hvað, sem eiga að sjá til þess að þessi ríkisstjórn noti nú ekki þetta sveiflujöfnunarhlutverk sitt til að bregðast raunverulega við ef á þarf að halda, ef hagvöxturinn, sem allir eru svo duglegir að minnast á hérna, heldur ekki áfram á blússandi ferð.

Hér er rætt um ferðamannafjöldann og að hann muni nú væntanlega ekki haldast að eilífu. En hér er ekkert rætt hvernig bregðast eigi við eða hvað eigi að gera til að það verði ekki of mikið högg fyrir almenning í landinu ef mikið dregur úr fjölda ferðamanna hér. Sömuleiðis er hér ekki að finna neina raunverulega hugsjón, engin gildi, engar áherslur sem þessi ríkisstjórn setur önnur, en að jafna út tölur á blaði.

Kannski kemur það betur í ljós nú þegar fjármálaáætlun verður lögð fram hvort ríkisstjórnarflokkarnir hyggist yfir höfuð efna eitthvert af sínum mjög svo kostnaðarfreku kosningaloforðum í setu sinni í ríkisstjórn, eða hvort þau ætli bara að tala fjálglega um að þau ætli að gera það, eins og þau hafa gert fram að þessu.

Það er eitt að tala fjálglega um að ætla að byggja og fjárfesta í innviðum samfélagsins og svo er annað að gera það. Þessi fjármálastefna ber þess ekki merki að það sé nokkur einasta áætlun um að fjárfesta í innviðum heldur ber hún þess miklu frekar merki að halda eigi að sér höndum, ekki að byggja neitt upp, við ætlum ekki að búa ferðamönnum sem hingað koma almennilega aðstöðu á þeim stöðum sem þeir kjósa að heimsækja eða gera neitt til að reyna að dreifa þeirra ásókn á fjölbreyttari staði en verið hefur hingað til. Suðurland er vissulega mjög fallegt land en það eru fleiri staðir á þessu landi sem gaman er að skoða og vert er fyrir ferðamennina okkar að kíkja á. En þeir staðir sæta ekki sama ágangi. Á einhverjum tímapunkti verður það of mikið fyrir Suðurland að taka við öllu þessu fólki. Þá þarf kannski að fara að huga að því hvernig eigi þá að dreifa öllum þessum ferðamönnum. En ekki er að sjá að það séu nein markmið í þeim efnum, um að dreifa fólki víðar um landið eða sjá til þess að ferðamannastraumurinn á Íslandi verði sjálfbær á einhvern hátt.

Það er heldur ekki að sjá að markmiðið hjá þessari ríkisstjórn sé að fjárfesta í framtíðinni. Við stefnum jú á framtíðina. Ég hef engan áhuga á að stefna á framtíðina með heilbrigðiskerfið eins og það er, með menntakerfið eins og það er. Ég sé ekki af hverju Íslendingar á mínum aldri eða yngri ættu að líta þannig á að það sé æskilegt að búa á Íslandi þegar stjórnvöld hafa jafn lítinn áhuga og raun ber vitni á að fjárfesta í innviðunum þannig að fólk geti lifað hér sómasamlegu lífi með góðri þjónustu og góðu samfélagi sem lætur sér annt um þá sem það byggja og hlúir að þeim innviðum sem þar er að finna. Því að tölur á blaði eru ekkert samanborið við raunveruleg verðmæti þjóðarinnar.

Ég vona að fjármálaáætlunin beri með sér að ríkisstjórnin hyggist, þrátt fyrir þetta plagg, fjárfesta í raunverulegum verðmætum þjóðarinnar. En ég er ekkert sérlega bjartsýn hvað það varðar, þar sem áherslur þessara flokka fram að þessu hafa ekki verið á velferð, á innviði þessa samfélags, þótt þau tali fjálglega um annað. En orð eru ekki það sama og gjörðir.