146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[13:45]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég tek heils hugar undir allt það sem hann sagði rétt í þessu í pontu. Vextir til framtíðarinnar, mér finnst þetta ágætisorðalag því við notum oft hagfræðina til að afmennska það sem við gerum hér í þessu húsi og gera það að hlut sem ekki hefur áhrif á raunverulegar manneskjur. Við tölum um að lækka vaxtabyrði ríkissjóðs en við spáum ekki í að með því séum við þá að hækka vaxtabyrði framtíðarinnar, þ.e. þeirra sem munu erfa þjóðfélagið sem við búum í núna. Sömuleiðis með þessa vegtolla og bifreiðagjöld og klósettgjöld. Úti í Þýskalandi borgar maður t.d. klink til að komast á klósettið til að borga fyrir vatnið þar. Það er nú ekki orðið þannig hér. En ég sæi það alveg fyrir mér sem birtingarmynd þeirra leyndu skatta sem þessi ríkisstjórn kýs að leggja á almenning í landinu. Því það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, þetta eru auðvitað bara skattar. Við skulum ekki gleyma að fyrrverandi ríkisstjórn hækkaði virðisaukaskatt á matvæli sem kom hvað verst niður á þeim sem hvað verst hafa það á þessu skeri en hreykti sér samt sem áður af því að lækka skattbyrði almennings og vera almennt andsnúin skattahækkunum.

Það má auðveldlega snúa öllu á hvolf og fela í fagurgala pólitíkurinnar eins og hv. þingmaður segir. Ég myndi segja að ef þessi ríkisstjórn sem nú situr hefur komið einhverju í verk er það að snúa út úr, breiða yfir og í raun leyna því sem hún er raunverulega að gera. Það verður eitthvað á bak við tjöldin og það verða fleiri skattahækkanir, þær verða mögulega ekki nefndar skattahækkanir heldur náttúrugjöld.