146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[13:52]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú hef ég fylgst mikið með þessari umræðu enda nefndarmaður í fjárlaganefnd og tel mér skylt að fylgjast með henni. Ég þakka fyrri andsvarendum ágætisumræðu um „newspeak“, þetta er mjög áhugavert mál. En um sama efni, þ.e. um skatta, segir einmitt í lögum um opinber fjármál að í fjármálastefnu skuli vera greinargerð um hvernig grunngildum skuli vera fylgt hvað varðar stefnumörkun um þróun gjalda og skattstefnu og aðra tekjuöflun hins opinbera. Sem sagt: Í fjármálastefnunni á að vera greinargerð um það hvernig skattstefnan og tekjuþróun á að vera næstu fimm árin. Það er hins vegar algerlega tómt í stefnunni, vantar algerlega. Meira að segja í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er talað um samþættingu grænna skatta. Maður hefði getað ímyndað sér að þeir hefðu getað dottið beint inn í fjármálastefnuna, en þá er ekki að finna þar.

Það sem mér fannst áhugavert við ræðu hv. þingmanns var einmitt þessi umræða um gjöldin og þessi þróun frá beinum sköttum yfir í óbeina. Það er eitthvað sem við höfum séð gerast á undanförnum áratugum, þ.e. að verið er að reyna að þrýsta niður þessum beinu sköttum og í staðinn koma þessir óbeinu skattar hér og þar. Það væri rosalega áhugavert að fá skýrslu eða yfirlit um það hver skattahækkun eða -lækkun hefur verið að teknu tilliti til þessara nýju óbeinu gjalda og skatta sem hafa verið lagðir á hægri vinstri, aðallega hægri, undanfarin ár. Ég var að velta fyrir mér hvort við gætum aðeins átt smásamræðu um það mál.