146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[13:54]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og tek heils hugar undir það með honum að fullt tilefni er til að skoða þetta. Ég spyr mig hvort við ættum ekki bara að skella í eina fyrirspurn til Ríkisendurskoðunar um akkúrat þetta, eða mögulega til aðila sem eru betur til þess færir að svara því; það er svona það fyrsta sem mér dettur í hug sem svar við þessari spurningu. Mig langar aðeins að fá að ræða það sem hv. þingmaður talaði um, að það vanti öll grunngildi í þessa fjármálastefnu. Hv. þingmaður er framsögumaður 3. minni hluta hv. fjárlaganefndar og tekur þar einmitt sérstaklega fram að grunngildin, sem tekin eru fram í þessari stefnu, séu í raun orðabókarskilgreiningar á grunngildum sem hafa beri í huga við gerð slíkra stefna án þess að eiginleg merking sé lögð í þau orð eða skoðað hvernig þessi stefna samrýmist þessum grunngildum. Hér eru orð eins og sjálfbærni, varfærni og stöðugleiki og gagnsæi og festa. En hér er ekkert talað um hvernig þessi stefna eigi að tryggja þessi gildi né raunverulega lagt neitt mat á hvað þessi gildi þýða fyrir stjórnarliða. Það er kannski bara í takti við það sem við höfum verið að ræða hér í andsvörunum, þ.e. hve auðvelt er að segja orð og láta þau merkja það sem manni sýnist. Það er langauðveldast að fletta þeim upp í orðabók og skrifa niður skilgreininguna og lýsa engum raunverulegum skilningi á því hvað orðin fela í sér. Það er eitt að drita nokkrum orðum niður á blað eða segja þau en annað að standa að baki þeirra, skilja þau eða finnast þau hafa einhverja merkingu í sínum huga, hvað þá að finnast að það þurfi að framkvæma eitthvað út af þeim orðum sem látin eru falla.