146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[13:58]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessar áhugaverðu umræður. Ég get ekki sagt að þetta sé tæk stefna í mínum huga. Hún á einmitt að byggjast á þessum grunngildum, þessi greinargerð. Það fyrsta sem ég rek augun í hvað varðar lögmæti þessarar stefnu, eða hvernig hún kemur út, er að þegar kemur að sjálfbærni stendur, með leyfi forseta:

„Sjálfbærni felur meðal annars í sér að opinberar skuldbindingar skuli vera viðráðanlegar og leggi ekki ósanngjarnar byrðar á komandi kynslóðir. Sjálfbærni kallar einnig á að samfélagið búi sig undir hækkandi meðalaldur og hægari fólksfjölgun.“

Ég fæ ekki séð að þessi stefna taki með nokkru móti mið af þessu. Þetta snertir raunar efni ræðu minnar hvað það varðar að við tökum lán af komandi kynslóðum með þessu fyrirkomulagi, tökum lán af komandi kynslóðum sem bera háa vexti. Þessir háu vextir munu birtast í formi lélegra innviða og í raun lélegs samfélags sem við byggjum þá saman og búum komandi kynslóðum. Það er engin sjálfbærnimarkmið að finna hér, ekkert um varfærni, en í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Varfærni skal ríkja til lengri tíma í fjármálum hins opinbera, þ.e. að forðast skuli ákvarðanir sem geta haft ófyrirséðar neikvæðar afleiðingar og að hæfilegt jafnvægi sé fyrir hendi milli tekna og útgjalda.“

Hér er ekkert um þessa varfærni heldur ætlar ríkisstjórnin að öllu leyti að reiða sig á sölu banka án þess að vita nokkuð hvað það mun bera í skauti sér. Það er engin varfærni í þessari stefnu og ekkert gagnsæi í því hvernig henni skal beitt og enga sjálfbærni hér að finna. Stöðugleiki er orð sem stjórnarliðar nota gjarnan. Ég veit ekki hvernig stöðugleika við erum að búa okkur hér.