146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[14:07]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna og tel að hún hafi verið ljómandi áminning fyrir okkur um hvert ríkisstjórnin er að fara með þessari stefnu sinni, þ.e. að draga fram hvaða áhrif hún hefur á einstaka hópa og hvernig staða þeirra er í dag. Núna stöndum við frammi fyrir því að litlu eða engu á að breyta. Eins og þingmaðurinn kom inn á og við höfum verið að ræða hér virðist þetta vera með þeim hætti að grafa eigi undan og einkavæða, bæði í menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu og hvað það nú er. Það bitnar auðvitað verst á þeim sem verst hafa það í samfélaginu, hvort sem um er að ræða börn eða eldra fólk.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann í ljósi þess sem hún sagði um þann hóp: Fram kemur ábending hjá fjármálaráði um að kominn sé tími á að búa til nýja kynslóðareikninga. Þeir voru gerðir fyrir Ísland í kringum síðustu aldamót. Vegna sjálfbærnihugtaksins (Forseti hringir.) sem þessi stefna byggir á telur ráðið vert að gera slíka reikninga. Er ekki þingmaðurinn sammála því?