146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[14:09]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Kynslóðareikningar eru það sem snýr að fólki til framtíðar og yfir ákveðinn tíma. Þá eru rannsakaðir hagir, hvort sem um er að ræða laun eða annað, sem snýr að innviðum og öðru slíku sem skiptir okkur öll máli og nær yfir ákveðið tímabil og var gert í kringum síðustu aldamót. Samfylkingin lagði reyndar fram beiðni um að slíkt yrði gert, minnir mig, á síðasta þingi þannig að það er til þingmál sem vert væri að við tækjum fram aftur og legðum til að yrði samþykkt. Alla vega voru einhverjir úr meiri hlutanum í fjárlaganefnd sem voru sáttir við hugmyndina og töldu að vert væri að gera þetta, gott ef það var ekki hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson, sem var mér sammála um að skynsamlegt væri að gera þetta í ljósi þess t.d. að við værum að fresta hér uppbyggingu innviða. Við leggjum að mínu mati ekki nógu mikið til innviðauppbyggingar framtíðarinnar miðað við þessar stefnur (Forseti hringir.) þannig að það væri áhugavert að sjá það gert af því að hér er alltaf verið að tala um að greiða bara niður skuldir en ekki að gera neitt annað.