146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[14:10]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ef ég skil þetta rétt var verið að tala um að fara í greiningarvinnu og þarfir komandi kynslóða og innviðauppbyggingu komandi kynslóða þá finnst mér það bara vera ljómandi hugmynd. Ég talaði hérna um daginn um Iroquois-ættbálkinn í Norður-Ameríku, sem er með sjö kynslóða regluna, þar sem engar ákvarðanir eru teknar ef þær teljast hafa neikvæð áhrif á næstu sjö kynslóðir, sem mér finnst vera stórmerkilegt fyrirbæri sem við ættum öll að hugsa um. Því að auðvitað erum við með þessa jörð í láni. Við fæðumst hérna. Við erum með auðlindir sem við eigum öll sameiginlegan rétt til en við eigum það ekki. Við erum bara með það í láni og þurfum að passa upp á að við séum ekki að skerða réttindi komandi kynslóða að þessum gæðum. Ef ég skil þetta rétt þá styð ég það auðvitað.