146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[14:12]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú er gaman að vera í þingsal. Við erum að ræða alvörupólitík og hvernig við sjáum samfélagið fyrir okkur. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir góða ræðu og finnst það sjónarhorn sem hún er með á fjármálastefnuna gott og athyglisvert. Hvað erum við að horfa á hjá hæstv. ríkisstjórn? Þetta snýst um að fletja allt út í flatar aðgerðir, skatta eða hvað það er sem í krónutölum snertir alla eins óháð tekjum, aðstöðu og efnahag. Hér er meira að segja sett þak á útgjaldahliðina. Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að henni var tíðrætt um fátækt, hvernig hún sjái fyrir sér að hægt sé að bregðast við með almennum aðgerðum til að útrýma fátækt og efla velferð á landinu ef það er þak á útgjaldahliðinni og svo á allt annað að rúmast innan hagsveiflunnar.