146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[14:16]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Vandamálið við pólitíkina í dag eða stjórnmálakúltúrinn er nefnilega að það er svo mikil skammsýni. Ég held að ástæðan fyrir því hljóti að vera sú að það eru allir að hugsa um þessi fjögur ár. Hvað getum við gert núna til þess að það líti út fyrir að við séum að gera eitthvað rosalega flott og gott fyrir framtíðina, þannig að við fáum endurkjör eftir fjögur ár? Ég held að þetta sé bein afleiðing af því að almenningur fær ekki nægileg tækifæri til að taka þátt í ákvarðanatöku og í stefnumótun. Rödd þeirra kemur ekki nægilega sterkt fram í öllu þessu ferli. Ef við viljum fara að horfa til langs tíma verðum við að taka almenning með og við verðum að leyfa fólki að koma að stefnumótun og opna allt þetta kerfi. Þannig getum við horft til framtíðar. Ef við ætlum að gera breytingar sem raunverulega skipta máli er ljóst að það mun taka miklu lengri tíma en eitt, tvö, þrjú, fjögur ár. Við þurfum að fara að leggja grundvöllinn núna að breytingum inn í framtíðina og hugsa lengra.