146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[14:17]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit að ég verð dæmdur hlutdrægur en ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir fallega og nauðsynlega ræðu. Ég vildi koma að óbeinum og beinum sköttum í fyrri andsvörum mínum. Stefnan hefur oft virst vera að fara út í óbeina skatta eins og vegtolla og nefskatt o.s.frv., varðandi útvarpsgjöld og því um líkt, en áhrifin sem óbeinir skattar hafa, skattur sem kemur einu sinni á ári, nokkuð stór upphæð, eru aðallega á þá sem hafa minna á milli handanna og yngra fólk. Það var dálítið sá tónn sem ég heyrði í ræðu hv. þingmanns og ég held að eigi miklu betur við núna að tala um. Sá aðstöðumunur sem er skapaður með þessari skattstefnu, sem er í rauninni engin en er alla vega boðuð í orði, eykur þann mismun sem hv. þingmaður rekur svo vel í ræðu sinni.