146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[14:19]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og athugasemdina. Það er alveg rétt að það er gífurlega mikill aðstöðumunur, t.d. bara það að eiga minni pening þýðir að skatturinn felur sig úti um allt. Það er hægt að kalla þetta fátæktarskattinn. Það er alltaf dýrara þegar maður getur ekki greitt fyrir hlutina strax heldur þarf að taka lán. Skatturinn virðist alls staðar felast. Sú ríkisstjórn sem situr núna byggir á þeirri hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar sem kallast, með leyfi forseta, ég kann ekki íslenska heitið, „trickle-down economics“. Það er sú hugmynd að alltaf þurfi að gera þá ríkari og ríkari af því að peningarnir muni einhvern veginn detta niður til okkar hinna frá þeim. (Gripið fram í: Brauðmolar.) — Brauðmolakenningin, já, nákvæmlega. En hún virkar ekki. Hún þjónar okkur ekki. Við erum búin að prufa þetta. Slík tilraunastarfsemi hefur verið í gangi í tvo og hálfan, þrjá áratugi og hefur ekki virkað. (Forseti hringir.) Þegar eitthvað þjónar okkur ekki verðum við (Forseti hringir.) að horfast í augu við það og taka upp nýja stefnu og prufa eitthvað annað.