146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[14:55]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú höfum við farið nokkuð vel yfir ýmis atriði þessarar þingsályktunartillögu. Það er sífellt að koma upp eitthvað nýtt, nýjar greiningar á því sem vantar. Ef við lítum aðeins um öxl: Við höfum farið mjög vel yfir það sem vantar í þessa þingsályktunartillögu samkvæmt lögum um opinber fjármál, þar eru göt. Hún er í raun samkvæmt forminu hálftóm. Þegar svona þingsályktunartillaga kemur frá ríkisstjórninni, tillaga sem uppfyllir ekki formið, af hverju ætti þingið að samþykkja hana? Ef minnihlutastjórn væri við völd — eins og er í raun núna, lýðræðislega, núverandi ríkisstjórn fékk minni hluta atkvæða, færri en stjórnarandstaðan, það er ákveðinn tæknilegur galli í kosningalögunum sem þarf að laga — og þessi tillaga kæmi frá henni yrði henni hent öfugri út. Þingið myndi ekkert sætta sig við svona tillögu frá minnihlutastjórn: Nei, það vantar í þetta, hún er tóm, viljið þið gera svo vel að gera þetta betur.

Ég myndi vilja spyrja hv. þingmann: Af hverju ættum við að greiða leið þessarar tillögu? Eigum við ekki bara að henda henni öfugri út?