146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[14:57]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Þetta er áhugaverð spurning. Ég neita því ekki að ég hef oft hugsað um þessi mál, kannski ekki í tengslum við þetta viðfangsefni núna, heldur ekki síður önnur mál. Við getum nefnt rammaáætlun, allt bixið í kringum aðildarumsókn að Evrópusambandinu o.s.frv. Samgönguáætlun, hvernig við umgöngumst hana. Það er þessi veruleiki, þar sem við hér á Alþingi erum í raun að setja okkur sjálfum reglur sem við förum svo ekki eftir. Við segjum að við eigum að samþykkja samgönguáætlun og á grundvelli hennar eigi að gera svona og hinsegin, en svo gerum við bara eitthvað annað. Hver á að skipta sér af því? Hver á að hafa skoðun á því? Það er auðvitað hárrétt, sem hv. þingmaður segir, að það er okkar sjálfra að gera athugasemdir við þegar svo er og þegar við förum ekki að lögunum við að setja áætlanir fram. Við höfum til að mynda tekist á um þetta í sambandi við rammaáætlun, hvort tillagan sem fram kemur sé í samræmi við lögin á hverjum tíma. Ég nefni sem dæmi þegar tillaga kom um einn virkjunarkost. Var það í samræmi við lögin eða ekki? Við tökumst á um það. Sumir eru þeirrar skoðunar að svo sé og aðrir ekki.

Það er ekki síður í þessu efni en svo mörgum öðrum sem við þurfum að viðhafa meiri aga í umgengni við okkar eigin reglur. Því í raun mega þessar reglur sín lítils ef við látum ekki svo lítið að fara eftir þeim sjálf. Þá er dálítið kúnstugt að ætlast til að aðrir í samfélaginu geri það.