146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:24]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg viðurkennt að ég hef átt svolítið erfitt í þessu máli. Ég bar ábyrgð á því að setja þessa vinnu af stað, að leggja grunninn að vinnunni við að semja lög um opinber fjármál. Ég er brenndur af reynslunni eins og aðrir og mér mjög meðvitaður um hversu mikilvægt það er að hafa aga og ábyrgð í þessum efnum. Mér út af fyrir sig líður betur að hafa stíf lög um opinber fjármál, sérstaklega þegar hægri menn fara með völdin, vegna þess að þeir hafa alltaf klúðrað þeim. Ég er orðinn leiður á því að þurfa af og til að koma til baka og taka til eftir þá. Ég hef gert það tvisvar nú þegar, við skulum vona að verði ekki allt þegar þrennt er. Þetta togast dálítið á í mér.

Það sem ég tel sérstaklega alvarlegt við þessa reglu og þetta viðbótarþak er hvað endurskoðunarglugginn er þröngur í 9. gr., ef ég man rétt. Það þarf nánast náttúruhamfarir. Það þarf nánast hrun til þess að menn geti, ef þeir svo kjósa, komið inn og endurskoðað. (Forseti hringir.) Með öðrum orðum: Þeir sem ekki vilja það geta skýlt sér á bak við það að ástandið sé (Forseti hringir.) ekki svo alvarlegt að það þurfi að taka stefnuna upp. Það er auðvitað það sem þeir ætla sér.