146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:30]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er líka vandi við þetta þak að þarna er um að ræða heildarjöfnuð ríkis og sveitarfélaga, heildarumsvif. Á það er bent, fjármálaráð gerir það, skilst mér, og ég hef verið að benda á það að við værum auðvitað á miklu samanburðarhæfari grunni með þessa hluti ef við notuðum frumjöfnuð og sérstaklega hagsveifluleiðréttan frumjöfnuð, þannig að við værum bara að reyna að skoða rekstur ríkisins í dag og hvað þarf til, hvað þarf ríkið að hafa í höndunum til þess að geta staðið sómasamlega að sínum málum? Það má segja að eina ljósið í þessu að notaður sé heildarjöfnuður er sá vaxtakostnaður sem er inni í þessu núna, í þeim sirka 41% sem við erum þá að keyra þetta á í dag. Það er auðvitað talsverður vaxtakostnaður í heildarjöfnuði, bæði ríkis og sveitarfélaga, eða útgjöldum. En svo er veikleikinn sá að menn eru að veðja á hagvöxtinn. Ef hann gufar upp þá er allt svigrúm allt í einu horfið út úr þessu og þetta er komið í dúndrandi mínus. (Forseti hringir.) Þetta er því allt of tæpt fyrir minn smekk og hefur verið að undanförnu. Hagsveifluleiðrétt (Forseti hringir.) afkoma ríkisins hefur verið í járnum síðastliðin fjögur ár. Það er bara (Forseti hringir.) ekki nóg.