146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:38]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Það er athyglisvert að hv. þingmaður rifjar upp, og réttilega, að það bar svo sem á góma hvort ætti að bæta einhverju útgjaldaþaki þarna inn. Það var niðurstaðan að gera það ekki þegar lögin voru afgreidd. Eiginlega er þeim undarlegri sú ráðstöfun núverandi ríkisstjórnar að bæta því inn í stefnuna. Okkur vantar alveg skýringar og rök fyrir því. Hvenær hafa stjórnarliðar komið hér upp og rökstutt það almennilega? Ég hef ekki heyrt það. Við skulum bara krefjast þess að þeir komi og geri það. Er ekki hægt að hringja í hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og biðja hann að koma og útskýra þetta fyrir okkur, herra forseti? Mér finnst ágætt að hann komi aðeins til umræðunnar áður en ræðuréttur manna tæmist.

Það væri ein ágæt leið, ein möguleg leið, að það væri einfaldlega í hlutverki stjórnvalda hverju sinni í upphafi kjörtímabils að setja inn sínar viðmiðunarreglur. Ég væri alveg tilbúinn til þess að skoða eina almenna reglu sem væri lögbundin og það er eitthvert skuldaviðmið og að stjórnvöld þyrftu sérstaklega að gera grein fyrir því ef þau ætluðu að fara upp fyrir það, auka skuldir ríkisins, (Forseti hringir.) því að þær gufa ekki upp eftir það eins og kunnugt er. Þær þarf að borga. (Forseti hringir.) En leyfa mönnum meira svigrúm í því að beita ríkisfjármálunum að öðru leyti.