146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel það og ég tel að svigrúmið sé þrengt allt of mikið til þess að hægt sé að beita ríkisfjármálunum, opinberum fjármálum í heild með skynsamlegum hætti. Það er auðvitað sá heimur sem maður vill gjarnan komast í. Að sjálfsögðu er gott að skuldirnar séu þá litlar, bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Þá er virkilega hægt að beita opinberum fjármálum til þess að mýkja áföll. Ég get sagt mönnum hér hvað er ömurlegt. Það er að vera fjármálaráðherra í ríkisstjórn sem hefur ekki efni á því að beita örvandi aðgerðum og mýkjandi aðgerðum, nema þá að mjög litlu leyti. Þannig var Ísland statt 2009. Það var eitt fjögurra landa sem t.d. OECD sagði um að staðan þar væri svo erfið að landið hefði ekki efni á stímúlus. Önnur lönd gætu það, þau væru betur stödd. En skuldirnar væru að verða svo háskalega miklar á Íslandi og aðstæðurnar svo erfiðar að það væri óverjandi að fara í útgjaldafrekar örvandi aðgerðir, t.d. framkvæmdir og annað slíkt, til þess að mýkja áfallið. Auðvitað gerðum við það samt að einhverju leyti. (Forseti hringir.)

Mér finnst engin ástæða til þess að menn séu með ágætisaxlabönd (Forseti hringir.) en vilji svo líka hafa belti lausgirt ef það eru rök hæstv. (Forseti hringir.) fjármálaráðherra. Ég legg til að við köllum í hann og látum hann reyna að selja okkur þetta betur.