146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:58]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru orðnar mjög hugmyndafræðilegar umræður, ekki mitt sterka svell kannski þegar kemur að hagfræði, en í þessu hagkerfi okkar eru endalausar sveiflur upp og niður, höfum aldrei getað sloppið við þær. Efnahagsleg sjálfbærni verður ekki kleif ef menn geta ekki stjórnað viðbrögðum eða efnahagslífinu í þessum sveiflum. Þá erum við bara þrælar sveiflnanna. og það sýnist mér akkúrat vera það sem hefur gerst með þessa fjármálastefnu.

Hvað varðar þetta 41,5% þak, ég hef ekki hugmynd um hvernig það var ákveðið. Ég bara veit að það er ekki góðs viti að festa það til fimm ára. Svo ég get ekki svarað þessari fyrirspurn eða ræðu hv. þm. Smára McCarthys öðruvísi en með þessari hugleiðingu um efnahagslega sjálfbærni, meðvituð viðbrögð við sveiflunum og einhverju marki með hlutfalli af vergri landsframleiðslu sem er fundið með einhverjum öðrum ráðum en að leggja saman nokkur meðaltöl og deila í.