146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:00]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Þegar ég fer að velta fyrir mér næstu fimm mánuðum þá sé ég fyrir mér gríðarlega aukningu á sjálfvirkni í rafbílum og bílaflotanum, meiri sjálfvirknivæðingu í ýmiss konar verksmiðjum, aukna sjálfvirkni í alls konar framleiðsluferlum sem við eigum jafnvel erfitt með að ímynda okkur í dag. Þá er ég að tala um næstu fimm mánuði. Næstu fimm ár eru nánast óhugsandi í þessu samhengi. Þegar ég hugsa um hvernig hagkerfi Íslands verður eftir fimm ár þá fæ ég svona ónotatilfinningu gagnvart því að við séum að tala um að binda niður ákveðna heimspeki sem hefur reynst úr sér gengin í langan tíma og mun örugglega ekki standast tímans tönn þegar við sjáum gervigreind á hverju strái. Hvernig á þessi sjálfbærni heima innan þess sviðs sem við erum að tala um, þessarar rjúkandi hröðu tæknivæðingar sem er að eiga sér stað?