146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:05]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Það er mjög til fyrirmyndar ef hópur þingmanna hefur talað um sjálfbærni og ef það hefur verið gert í fjárlaganefnd, sem ég sat ekki í, þá fagna ég því mjög og skilgreiningunni sem kemur fram í nefndarálitinu, sem ég hef því miður ekki lesið svo ég get svo sem ekki úttalað mig um það. Ég sakna þess að þetta hugtak skuli ekki hafa komið fram í umræðunum, nema kannski í dag, og hvað það þýðir í fjármálum. Kannski hefur fjárlaganefnd verið betur til þess fallin að semja stefnu í ríkisfjármálum en núverandi ríkisstjórn, það kann að vera. Ég held að því nánar sem við náum að vera sammála um hvað sjálfbærni þýðir í fjármálum, þeim mun betra. Það er svo auðvelt að negla niður sjálfbærni þegar kemur að náttúrunytjum, það er að skila náttúrunni eða auðlindunum jafn góðum eða betri til næstu kynslóðar. Sú einfalda skilgreining gerist miklu flóknari þegar komið er að fjármálum. Hvað eigum við nákvæmlega við? Ég reikna með að ég fái annan orðastað við hv. þingmann og spyr hana á móti: Hvernig skilur hún það?