146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:06]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Okkur fannst svo mikilvægt þegar við vorum að ganga frá nefndarálitum og afgreiðslu laga um opinber fjármál út úr nefndinni að það væri einhver sameiginlegur skilningur á því hvað þetta þýddi. Það er mikil pólitík í því að það sé ekki bara einhver efnahagsleg sjálfbærni heldur komi þetta við umhverfið og samfélagið líka. Það er grundvallaratriði. Þess vegna finnst mér mikilvægt að þetta hafi verið sett í nefndarálit meiri hlutans sem lögskýringargagn. Það er líka annað sem við ræddum um sem var efnahagslegur stöðugleiki og félagslegur stöðugleiki og að ekki væri allt fengið með efnahagslega stöðugleikanum, hann væri ekki til ef sá félagslegi væri ekki með. Það er líka mikil pólitík í því. Við sem viljum halda þessu á lofti þurfum að halda þeim skilningi og skilgreiningu til haga. Er hv. þingmaður ekki sammála mér í því?