146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:09]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegur forseti. Ég ætla að vera á svipuðum nótum og sá sem hér stóð í ræðustól á undan mér, hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson, hvað efnistök máls míns varðar. Ég er betur að mér í ýmsum öðrum málefnum en hagfræðinni. Það breytir því ekki að ég get fjallað um þessa ágætu fjármálastefnu út frá öðrum sjónarhornum.

Í sjónvarpsþætti um síðustu helgi kom fram að himinflug Sjálfstæðisflokksins í skoðanakönnunum er stjórnarandstöðuflokkunum að þakka, enda hafi þeir bent á góð verk Sjálfstæðisflokksins en ekki samstarfsflokkanna. Þetta eru stór orð. Ég ætla að reyna að ná einhverju af þessu fylgi Sjálfstæðisflokksins með því að tengja hann og fortíð hans í samhengi við einkavæðingu bankanna við fjármálastefnuna sem hér er rædd.

Til verksins ætla ég að nota ágæta skýrslu endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins frá 2009, Uppgjör og lærdómur heitir einn kaflinn. Þessi ágæta skýrsla vakti reyndar litla hrifningu hjá guðföður flokksins og formanni til margra ára á landsfundi flokksins eins og frægt er orðið.

Áður en ég lít á skýrsluna langar mig þó að hafa nokkur bein orð um þessa fjármálastefnu. Hér er settur ákveðinn rammi sem fjárlög verða svo að passa inn í næstu árin. Svigrúm til breytinga er lítið sem ekkert. Alþingi eru settar skorður til næstu ára. Þetta minnir mig svolítið á þegar sjúkrahúsyfirvöld þurfa að spara og loka ákveðnum deildum. Dettur mér í hug geðdeildin norður á Akureyri. Þar er stakkurinn svo þröngt sniðinn að loka þarf þeirri deild tímabundið, eða þurfti í það minnsta hér í eina tíð, nú þekki ég ekki nákvæmlega hvernig það hefur verið síðustu ár. Og ég veit að þetta er víða svona. Þeir sem veikjast alvarlega og þurfa á hjálp að halda komast ekki undir læknishendur, fá ekki aðstoð vegna þess að skorður eru þröngar. Þar er jú útgjaldaþak, sem ég kem að á eftir.

Í framtíðinni mun Alþingi þurfa að beygja sig undir fastar kvaðir sem ekki er víst að passi við raunveruleika framtíðarinnar. Enda er það svo að það erfitt að spá, sérstaklega um framtíðina. Ég er nokkuð viss um að þegar stjórnarflokkarnir verða rukkaðir um efndir kosningaloforðanna í framtíðinni munu þeir skýla sér á bak við útgjaldaþakið. Við skulum skoða aðeins álitsgerð fjármálaráðs frá 9. febrúar þessa árs. Þar stendur um þetta útgjaldaþak, með leyfi forseta:

„Í greinargerð með fjármálastefnunni er gert ráð fyrir að bæði tekjur og gjöld vaxi í takt við nafnvöxt landsframleiðslu og að hlutföllin haldist því nokkuð föst yfir það hagvaxtarskeið sem vænst er á næstu árum. Eins og nefnt hefur verið felur það í sér aftengingu sjálfvirkra sveiflujafnara sem að öðru óbreyttu væri vísbending um að slakað væri á aðhaldi.

Í ákvæði IV í fjármálastefnunni er sett fram það markmið að útgjöld verði ekki umfram 41,5% af vergri landsframleiðslu á tímabilinu en metið er að umsvifin verði um 41% árið 2017. Markmiðið er sett til að takmarka útgjaldavöxt að hlutfallstölu yfir hagsveifluna og umsvif hins opinbera. Vert er að benda á að í greinargerð með 6. gr. laganna um grunngildi stöðugleika kemur fram að ávallt sé stefnt að því að árleg útgjöld hins opinbera, að frádregnum vaxtagjöldum, vaxi ekki að raunvirði umfram langtímavöxt landsframleiðslunnar. Þetta þarfnast frekari umræðu því almennt er það stjórnmálalegt viðfangsefni hvert umfang hins opinbera eigi að vera.

Það er ljóst, líkt og umfjöllun hér að framan gefur til kynna, að innlend eftirspurn er farin að vaxa umfram hagvöxt og við því þarf bregðast með auknu aðhaldi. Ítarleg útlistun á þróun útgjalda og sértækra aðgerða hins opinbera kemur þó ekki fram í fjármálastefnunni eða greinargerð hennar, enda þótt margföldunaráhrif aukinna útgjalda velti á því til hvaða málaflokka þeim er varið. Til að greina megi áhrif aukinna ríkisútgjalda á eftirspurn er ekki nóg að fjalla einungis um umfang útgjaldanna, samsetningin skiptir líka máli.

Jafnframt skiptir máli hvernig tekna er aflað. Samsetning og samspil skatta getur haft áhrif á eftirspurn í hagkerfinu og skapað mismunandi hvata. Framsetning stefnu hvað þetta varðar og sértækar aðgerðir í skattamálum væru að sama skapi til bóta fyrir gagnsæi og myndi auka festu stefnunnar og gefa vísbendingu um aðhald.

Fjármálastefnan byggir á hagfelldri en óvissri efnahagsspá. Með einföldum útreikningi má sýna að afkoman er mjög næm fyrir breytingum á framvindu efnahagsmála. Lítið frávik frá spánni getur leitt til þess að heildarafkoma, án frekari aðgerða, verði nálægt núlli og jafnvel neikvæð. Í þessu samhengi skal á það bent að óvissan eykst eftir því sem lengra líður á tímabilið. Að sama skapi er ljóst, líkt og með afkomumarkmiðið, að ef hagvöxtur reynist lægri en spár gera ráð fyrir gæti reynst erfitt að ná markmiði um útgjöld án aukins aðhalds.“

Og hér kemur rúsínan í pylsuendanum. Ég held áfram tilvitnun minni, með leyfi forseta.

„Samkvæmt þessu geta stjórnvöld lent í spennitreyju fjármálastefnu sinnar ef atburðarásin reynist önnur en efnahagsspáin gerir ráð fyrir. Í ljósi þessa gæti verið heppilegra að nota afkomumarkmið á bili, í stað punktmats með gólfi, þar sem tekið er tillit til hagsveifluleiðréttingar við stefnumörkun í opinberum fjármálum. Með hagsveifluleiðréttingu mætti minnka þá áhættu sem felst í að hagspár gangi ekki eftir. Að sama skapi er hægt að mæla með sveigjanlegra útgjaldamarkmiði. Ósveigjanleiki getur reynst fjötur um fót.“

Svo mörg voru þau orð. „Ósveigjanleiki getur reynst fjötur um fót.“ Ég ætla að lesa eina efnisgrein til viðbótar, með leyfi forseta.

„Fjármálaráð telur jafnframt mikilvægt að stjórnvöld gæti að einkennum hagsveiflunnar og undirbúi jafnvel sértækt áhættumat eða sviðsmyndir til að auka frekar gagnsæi stefnunnar og undirbúa viðbrögð. Líkurnar á því að efnahagsspár gangi eftir að öllu leyti eru litlar. Bæði vegna þess að það ríkir ávallt óvissa um þróun efnahagsmála sem og hvernig fjármál hins opinbera, tekjur og gjöld, munu þróast við mismunandi framvindu efnahagsmála.“

Þess sjást lítil merki að ákalli almennings um stórfellda uppbyggingu innviða verði svarað og það er miður.

Næst langar mig að lesa hluta af umsögn Alþýðusambands Íslands um þessa fjármálastefnu sem við ræðum hér nú.

„Fyrirliggjandi fjármálastefna byggir að mati ASÍ í meginatriðum á að auka afgang af rekstri ríkissjóðs með því að nota eignir og afgang af rekstri til hraðari niðurgreiðslu skulda en áður var áformað. Með því lækki vaxtagjöld ríkisins og afkoman batni. Að baki þeirri áætlun er hins vegar óljós stefna um sölu ríkiseigna og talsverð óvissa um söluverðmæti þeirra eigna sem um ræðir. Tekjustofnar ríkisins hafa á undanförnum árum verið veiktir sem dregur úr aðhaldi ríkisfjármálanna og minnkar verulega svigrúm til nauðsynlegra velferðarumbóta. Engin áform eru þannig uppi um að nýta bætta stöðu sem lægri vaxtagjöld ríkissjóðs skapa til að aukinnar almennrar velferðar. Á yfirstandandi ári leiða sértækar kerfisbreytingar til lækkunar tekna um 8 milljarða króna sem bætist við þær þensluhvetjandi aðgerðir sem ráðist hefur verið í á tekjuhlið ríkisfjármálanna á undanförnum árum og má þar m.a. nefna skuldalækkunaraðgerðir og skattkerfisbreytingar á borð við afnám auðlegðarskatts, lækkun veiðigjalda og lækkanir á tollum og neyslusköttum. Afleiðingarnar verða þær að tekjustofnar ríkisins nægja ekki til að fjármagna nauðsynleg útgjöld til velferðar og innviða þrátt fyrir uppsveiflu. Aðhaldið í stefnunni byggir á því að nota velferðarkerfið sem helsta hagstjórnartækið með aðhaldi í gegnum ófjármagnaðar brýnar velferðarúrbætur og innviðaframkvæmdir ásamt veikingu á barna- og vaxtabótakerfunum. Fyrirséð er að þegar dregur úr umsvifum mun blasa við niðurskurður í opinberum rekstri og/eða skattahækkanir, þvert á hagsveifluna.“

Hér kemur fram að hluta til það sem ég hef margoft haldið fram, ríkið er búið að afsala sér ýmsum tekjumöguleikum og mun lenda í erfiðleikum við að fjármagna þær miklu umbætur og framkvæmdir sem þjóðin og fyrirtækin í landinu kalla eftir. Nú vofir sala bankanna yfir vötnum í tengslum við þessa fjármálastefnu og spurning hvort almenningur treysti þeim flokki sem fer fyrir þessari ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokknum, til verksins og til annarra verka yfirleitt.

Þá er ég kominn að þeirri prýðilegu skýrslu, sem ég boðaði áðan. Hér er fjallað um, með leyfi forseta, einkavæðingu bankanna. Á sérstaklega vel við í dag.

„Óumdeilt er að rétt hafi verið að einkavæða þá banka sem voru í eigu ríkisins árið 2002. Með því leystist úr læðingi kraftur sem var atvinnulífinu nauðsynlegur. Pólitísk fyrirgreiðsla skyldi líða undir lok og skilvirkni markaðarins ráða. Þetta ferli hófst raunar árið 1990 þegar Útvegsbankinn var sameinaður minni bankastofnunum og úr varð Íslandsbanki og lauk þegar Landsbankinn og Búnaðarbankinn voru að fullu einkavæddir.

Mjög er hins vegar gagnrýnt hvernig var staðið að einkavæðingu þessara tveggja banka. Ferlið var ógagnsætt og hagstæðari tilboð fyrir ríkissjóð á alla hefðbundna mælikvarða voru sniðgengin.“

Virðulegi forseti. Ég geri hlé á beinni tilvitnun í skýrsluna. Ég er ekki að lesa upp úr skýrslunni sem var afhent hér í gær. Ég er að lesa upp úr stórkostlegu plaggi frá árinu 2009 þar sem Sjálfstæðisflokkurinn fór í naflaskoðun. Aldrei hefði mig órað fyrir að ég ætti eftir að lesa upp þetta plagg í ræðustól Alþingis en svo bregðast krosstré sem önnur tré. Ég held áfram með mál mitt.

„Ekki var fylgt upphaflegri aðferðafræði, s.s. um dreifða eignaraðild. Bankarnir lentu, að einhverju marki eftir pólitískum línum, í höndum aðila sem voru reynslulitlir í bankastarfsemi (alþjóðlegri sérstaklega). Stjórnvöld sögðu almenningi að engin ríkisábyrgð væri á bönkunum, ef svo hefði verið hefðu bankarnir verið seldir á hærra verði. …“

Herra forseti. Nú geri ég aftur hlé á beinni tilvitnun minni í skýrsluna og rifja upp orð hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar frá því í morgun þegar hann innti hæstv. fjármálaráðherra eftir því að nú þegar búið væri að gera upp Framsóknarhluta þessarar misheppnuðu einkavæðingar hvort ekki væri tími til kominn að gera upp Sjálfstæðishlutann. Hann svaraði því í engu. Ég held áfram tilvitnun minni, með leyfi forseta.

„Meðferð sparifjár er alltaf viðkvæm og þarf að vera háð ströngum siðalögmálum, auk öruggrar framkvæmdar laga og reglugerða. Margt í upphaflegri aðferðafræði við einkavæðingu ríkisbankanna tveggja var heppilegt, s.s. að gera ráð fyrir mjög dreifðri eignaraðild. Að þessu öllu skal hyggja þegar kemur að því að einkavæða bankana á ný. Það ferli taki mið af þeim augljósu mistökum sem gerð voru við einkavæðingarferlið hið fyrra.“

Þetta eru áhugaverð orð. Ekki síst eins og ég sagði áðan í ljósi tíðinda gærdagsins.

Það er ýmislegt fleira gagnlegt sem kemur fram í þessari skýrslu. Ég held að ég hafi ekki á ævi minni verið jafn jákvæður í garð Sjálfstæðisflokksins og akkúrat núna hér á þessum stað. Það er nefnilega þetta með eftirlitsstofnanirnar. Hér var í morgun mér liggur við að segja hart sótt að Fjármálaeftirlitinu, og í gær reyndar líka, og tekið fram að það hafi kannski ekki staðið sína plikt. Hér gera þessir ágætu aðilar í endurreisnarnefnd Sjálfstæðisflokksins að umtalsefni Þjóðhagsstofnun sem hér var einu sinni og var lögð niður án þess að nokkuð kæmi í staðinn. Ef ég man rétt hefur reyndar verið lögð fram tillaga um að hún verði endurreist. Með leyfi forseta segir:

„Það hefur ekki verið skýrt með fullnægjandi hætti af hverju Þjóðhagsstofnun var lögð niður á sínum tíma. Stofnunin hafði gegnt mikilvægu hlutverki við stjórn efnahagsmála um áratugi með faglegri upplýsingagjöf til stjórnvalda. Mikilvægur þáttur í starfsemi Þjóðhagsstofnunar var að leggja sjálfstætt mat á þróun efnahagslífisins og einstakra þátta þess. Þess utan var stofnunin einstökum þingmönnum, Alþingi, hagsmunaaðilum og fleirum til ráðgjafar og umsagnar. Það má telja vafalaust að mikið gagn hefði verið af sjálfstæðri og faglegri umsögn og mati Þjóðhagsstofnunar, eða sambærilegrar stofnunar, á þróun efnahagsmála á seinustu árum. Greiningardeildir bankanna héldu að almenningi og fyrirtækjum einhliða greiningum og mati á íslensku efnahagslífi, en sárlega vantaði faglega og gagnrýna umfjöllun um efnahagsástandið, stöðu og framtíðarhorfur.“

Virðulegur forseti. Hér kemur fram skemmtileg spurning: „Það hefur ekki verið skýrt með fullnægjandi hætti af hverju Þjóðhagsstofnun var lögð niður á sínum tíma.“ Ég get svarað því bara hér og nú í þessum ræðustól. Þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, lenti upp á kant við þá stofnun, eða kannski öfugt, vegna þess að sú ráðgjöf og sú greining sem hún birti og hélt að almenningi og stjórnmálamönnum — og Sjálfstæðismönnum líka — hugnaðist honum ekki. Og í geðillskukasti var Þjóðhagsstofnun allt í einu lögð niður. Vonandi berum við gæfu til þess að endurreisa hana.

Virðulegur forseti. Ég er ekki búinn með yfirferð mína um þessa skýrslu endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins. Það er spurning hvort ég geri það í annarri ræðu minni síðar í dag.

Nú stefnir sem sagt í að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hefji bankasölu. Ég hef af því þungar áhyggjur. Sporin hræða. Ég er ekki viss um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lært af mistökum fortíðar. Ef Sjálfstæðismenn hafa farið að ráðleggingum Davíðs Oddssonar hafa þeir fleygt þessari skýrslu eða sett hana í arininn, enda var honum sárt um (Forseti hringir.) allan pappírinn sem í hana hafði farið.