146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:37]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Tími sagnfræðinganna er kannski kominn. Einhvern tíma var hér þekkt kona í stjórnmálum sem sagði: Minn tími mun koma. Tími sagnfræðinganna mun koma.

Ég upplifði mjög skemmtilega kosningabaráttu í Norðausturkjördæmi. Þar var, eins og hv. þingmaður ýjaði að en sagði þó ekki, efsti maður á lista Viðreisnar, Benedikt Jóhannesson, sem síðar meir átti eftir að verða efnahags- og fjármálaráðherra, og talaði aldrei um útgjaldaþak, aldrei um þær skorður sem hafa verið settar núna í fjármálastefnunni. Hann talaði um innviðauppbyggingu. Hann var mikill talsmaður þess að geðheilbrigðisþjónusta ungs fólks yrði bætt og ekki hvað síst í Norðausturkjördæmi.

Ég man líka eftir því að hafa heyrt fulltrúa þriðja ríkisstjórnarflokksins, Bjartrar framtíðar, fara mörgum og fögrum orðum um áherslur þess ágæta flokks í einmitt sömu málum. Þar átti nú heldur betur að taka til hendinni. Þar átti að gefa heldur betur í og slá í klárinn. Það var sama í hvaða málum það var, hvort sem það var um heilbrigðismál, menntamál, samgöngumál eða eitthvað annað sem til bóta horfði fyrir íslenska þjóð. Ég veit líka fyrir víst að sá ágæti maður varð fyrir vonbrigðum með þau sinnaskipti sem sá flokkur tók eftir kosningar.