146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:41]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir andsvar hennar. Jú, mér þótti nefnilega full ástæða til að verja drjúgum tíma áðan í að rifja upp þessa einkavæðingu og vil rifja upp tvær eða þrjár línur sem ég las áðan, með leyfi forseta.

„Bankarnir lentu, að einhverju marki eftir pólitískum línum, í höndum aðila sem voru reynslulitlir í bankastarfsemi …“

Lentu „eftir pólitískum línum“. Þetta þarf held ég ekki að stafa ofan í fólk og alls ekki ofan í hv. þingmanninn sem kom upp í andsvar. Spurningin er hvenær eigi að selja bankana. Svarið er mjög einfalt. Það á alls ekki að selja nokkurn hlut í þessum bönkum fyrr en gengið hefur verið úr skugga um að hægt verði með því regluverki sem þarf og með þeim lagasetningum sem þarf að komast línuna á enda, að við vitum hver það er sem er að bjóða í banka eða hlut bankana og/eða almennt aðrar eignir. Við erum ekki bara að tala um bankana þótt ég hafi svo sem tekið þá sérstaklega fyrir áðan. Það er ansi margt fleira sem er undir.

Við þurfum að ganga frá því að þetta ferli verði skothelt. Þá fyrst skulum við hugsa málið, hvað við seljum og hvað ekki. Og þá förum við okkur hægt.