146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:50]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég verð að taka undir með félögum mínum hér á undan. Maður fær svolítið á tilfinninguna að þetta plagg sé að verða alveg munaðarlaust, eigi bara enga aðstandendur. Þeir eru allir gufaðir upp. Við höfum hvorki séð í dag formann fjárlaganefndar og framsögumann meiri hlutans né hæstv. ráðherra né neinn ráðherra.

Ég var svo bjartsýnn um tíma að ég ímyndaði mér að hæstv. forsætisráðherra og fyrrverandi fjármálaráðherra, sem á nú stóra aðild að því að sú löggjöf er komin sem við búum við á þessu sviði, myndi heiðra þingið og málið með nærveru sinni. Auðvitað er stjórnarmeirihlutinn með þessu að gengisfella þessa mál sitt og sýna því takmarkaða virðingu, að láta ekki sjá sig hérna og gufa upp.

Í ræðu minni áðan, sem var trúlega ræða mín númer tvö í þessu máli, þær gætu orðið fleiri, óskaði ég sérstaklega eftir því hvort ekki væri hægt að fá þessa forsvarsmenn málsins til okkar aftur áður en umræðu lyki, t.d. formann fjárlaganefndar. Ég hef hug á að spyrja af hverju fjárlaganefnd eða meiri hluti hennar ræddi ekki um að taka þetta þak út aftur (Forseti hringir.) úr því að það mál var skoðað á síðasta kjörtímabili og ákveðið að hafa það ekki. Að hluta til er sama fólk í nefndinni.

(Forseti hringir.) Ég bið hæstv. forseta að koma þeim skilaboðum áleiðis til formanns fjárlaganefndar og hæstv. ráðherra að þeirra nærveru sé óskað.