146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:51]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til þess að hvetja forseta til að gera hlé á þessari umræðu og gefa fjárlaganefnd tækifæri til að kalla málið aftur inn til sín og funda um það. Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar er komið að sölu á hlutum ríkisins. Í ljósi þeirra upplýsinga sem komu fram í gær og umræðunnar sem hefur verið í samfélaginu held ég að það sé alveg ástæða fyrir meiri hluta nefndarinnar að endurskoða það sem hann skrifar hér. Talað er um að það þurfi að vanda til undirbúnings, sem ég er svo sannarlega sammála, en hins vegar er nefndur möguleikinn að leita til erlendra aðila um ráðgjöf og umsýslu vegna sölu. Ég held að það sé nú kannski ástæða til að nefndin ræði það aðeins og vandi betur til verka.

Það er líka sláandi að standa hérna og sjá bara enga stjórnarliða í þingsal, einn birtist núna í dyragættinni, þegar við erum að ræða um fjármálastefnuna og (Forseti hringir.) svo mikilvæga hluti eins og sölu á ríkiseignum eins og kemur fram í þessari stefnu.