146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:52]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmönnum sem hér hafa talað. Það er með öllu forkastanlegt að í þingsal skuli ekki vera einn einasti stjórnarliði til að verja þessa þingsályktunartillögu, fjármálastefnu til næstu fimm ára. Þetta er ekkert smá plagg. Það eru engar smá skuldbindingar sem hér er verið að ræða. Við í minni hlutanum höfum í ræðum okkar bent á að ýmsar forsendur fjármálastefnunnar sem hér er lögð fram og hefur verið til umræðu eru svo veikar að það eru efasemdir um að hún haldi. Þessu þurfum við að fá svör við. Þetta þurfum við að ræða við fulltrúa stjórnarmeirihlutans. Ef þeir sjá sér ekki fært að koma hingað og verja þetta plagg, þessa áætlun til næstu fimm ára, legg ég til að forseti kalli þá hingað í hús og við getum átt orðastað við þá í málstofu þjóðþingsins um þetta plagg.