146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:55]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta fer að verða viðvarandi þema hjá þessari ríkisstjórn, að hún sé fjarverandi í öllum sínum helstu málum og kjósi að gera sem minnst grein fyrir máli sínu eða ræða við okkur sem í stjórnarandstöðunni erum. Þetta þykja mér heldur rýr skilaboð, sérstaklega frá þeim flokkum sem töluðu um breytt vinnubrögð, aukið samráð, og meira samtal við okkur í stjórnarandstöðunni, nú væru nýir tímar þar sem allir skyldu tala saman og vera vinir og vinna saman. Þetta er ekki mikil samvinnupólitík þegar við stöndum, stjórnarandstaðan, ein í þjóðþinginu að ræða fjármálastefnu ríkisstjórnar sem hún kýs að standa ekki fyrir sjálf heldur lítum við þess í stað á auða stóla. Kannski kjósa ráðherrar frekar að tjá sig um sín mál á Facebook en það er ekki staðurinn til skoðanaskipta heldur er það í þessari pontu. Ég syrgi fjarveru þeirra.