146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:00]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þá beiðni, þá kröfu að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra verði kallaður til og komi hingað og ræði við okkur. Hann var nokkuð duglegur við það í fyrradag þegar við vorum að byrja að ræða þetta mál. Það var til bóta að heyra sjónarmið hans. Við eigum að vera að ræða um inntak og pólitík. Ég vil jafnframt taka undir það sem hv. þm. Eygló Harðardóttir benti á, að það væri auðvitað rétt að gera hlé á þessari umræðu og leyfa hv. fjárlaganefnd að fá málið aftur til sín því að það eru svo margir agnúar á því.

Svo langar mig einnig, herra forseti, að biðja um að hæstv. umhverfisráðherra komi og taki þátt í umræðunni vegna þess að það er sagt að sjálfbærni eigi að vera eitt af markmiðum (Forseti hringir.) fjármálastefnunnar en það að gert sé ráð fyrir hagvexti til þess að hún gangi eftir er (Forseti hringir.) í andstöðu við öll loftslagssjónarmið. (Forseti hringir.) Þess vegna þurfum við þann ráðherra(Forseti hringir.) líka í umræðuna.

(Forseti (TBE): Forseti biður þingmenn að virða ræðutímann sem gefinn er.)