146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:05]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég myndi kannski vilja ítreka beiðni mína frá því fyrr, hvort forseti gæti brugðist við því hvort væri ekki rétt að gera hlé á þessari umræðu meðan við gefum ráðherrum og formanni fjárlaganefndar tækifæri til að koma hingað inn í umræðuna. Þetta er eitt af þeim allra stærstu málum sem hver ríkisstjórn leggur fram eins og virðulegur forseti ætti að vita mjög vel af fyrri reynslu. Það að við skulum þurfa að kalla eftir því að fulltrúar stjórnarflokkanna komi hér er óásættanlegt, og ég held að ekki sé ásættanlegt að kalla bara eftir fjármálaráðherra, það eru þrír flokkar sem standa að þessu ríkisstjórnarsamstarfi. Mér finnst eðlilegt að hér séu að lágmarki oddvitar stjórnarflokkanna, leiðtogarnir þrír, því að þeir hljóta að ætla að fylgja þessu máli eftir. Hér erum við að tala um stærsta einstaka mál hjá hverri ríkisstjórn, hvernig við ætlum að standa að fjármálum ríkisins, hvernig við ætlum við að verja og tryggja að það sem við höfum verið að fjalla um í (Forseti hringir.) dag og í gær og náttúrlega í fleiri ár, gerist ekki aftur.