146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:08]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég má til með að taka undir með öllum þeim sem hafa mælt á undan mér og lýsa ánægju minni með að hafa komist að áhugaverðri staðreynd um samflokksmann minn, hv. þm. Einar Brynjólfsson. Ég verð einna helst að leggja áherslu á hvað mér finnst mikilvægt að það séu fleiri ráðherrar stjórnarflokkanna viðstaddir. Eins og komið hefur fram í máli hv. þingmanna um fundarstjórn er þetta plagg sem hefur áhrif á störf þeirra allra. Ég hef hug á að vita hvernig þeir geta haldið því fram að þetta plagg sé leiðarvísir að loforðum þeirra, þ.e. hvernig þetta plagg sýni okkur að þeir ætli að standa við innviðauppbygginguna sem þeir lofuðu eða uppbyggingu heilbrigðiskerfisins sem samkvæmt stjórnarsáttmála átti víst að fara í algeran forgang. Ég á erfitt með að sjá það. Ég myndi gjarnan vilja heyra frá hæstv. heilbrigðisráðherra Óttarri Proppé um hvernig hann sjái fyrir sér að þessi rammi, þessi mjög svo þröngi rammi, þetta búr í raun sem þessi stjórn er að setja sér, passar inn í þær áherslur sem hann telur sig framfylgja í þessari ríkisstjórn.