146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:11]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Fyrir kosningar töluðu allir flokkar um mikilvægi þess að fara í stórfellda innviðauppbyggingu. Ekki bara í heilbrigðiskerfinu heldur menntakerfi, samgöngum og öðrum þeim innviðum, löggæslu og þeim kerfum sem vantar fjármagn í, ekki síst vegna þess að við búum við það, sem er auðvitað jákvætt, að hingað streyma ferðamenn sem aldrei fyrr og bætast auðvitað við íbúana og þurfa þjónustu alveg eins og við. Á öllum þessum sviðum, nema kannski í menntamálum.

Það er því sérstakt þegar ríkisstjórnin leggur fram þessa stefnu skömmu eftir að hún verður til, ríkisstjórn sem maður hefði kannski haldið að ætti að snúast um innviðauppbyggingu, það væri lykilatriðið hjá þeirri ríkisstjórn — það hefði allavega verið inntakið í ríkisstjórn sem ég hefði viljað sitja í á þessu kjörtímabili að innviðauppbygging væri á öllum sviðum. Það er líka sérstakt að ríkisstjórn með eins nauman meiri hluta og raun ber vitni, 32 þingmenn, leggur fram stefnu sem gengur lengra í átt frá þeim sjónarmiðum sem hér hafa verið í salnum, þá stjórnarandstöðu síðasta kjörtímabils, og trúir því að það sé eitthvað sem geti orðið ríkjandi sátt um.

Við þekkjum það að á Norðurlöndunum, auðvitað er í mörgum tilvikum um minnihlutastjórnir að ræða en líka þegar meirihlutastjórnir eru, gera menn sér þann krók að tala við aðra flokka á þingi til að efla stuðning við þá stefnu sem menn ætla að fara fram með. Það hefði kannski verið skynsamlegt af núverandi ríkisstjórn. Því að þeir segja, sérstaklega hæstv. fjármálaráðherra, að þetta sé ekki bara mikilvægasta mál kjörtímabilsins, maður gæti skilið á orðum hans að þetta sé ástæða þess að ríkisstjórnin varð til, þ.e. fjármálastefnan, að þeir hefðu kannski til að koma henni fram og að hún væri raunhæf, átt samtal við stjórnarandstöðuna um hvernig hægt sé að koma fram með stefnu á erfiðum tímum, ég geri mér fulla grein fyrir því, ekki eru erfiðleikatímar en erfiðir tímar vegna þess að þensla er yfirvofandi og við erum á toppi hagsveiflunnar og eigum mikið ógert í innviðauppbyggingu. Þess vegna skiptir máli hvernig þetta er gert.

Það hefði kannski verið skynsamlegt til að stefnan gengi fram í sátt og væri raunhæfari, að menn hefðu sest niður og fundið leið sem snerist að því hvernig við gætum byggt upp innviðina og á sama tíma haft aðhald í ríkisrekstri og skapað þannig svigrúm fyrir áframhaldandi jákvæðan hagvöxt án þess að lenda í efnahagslegum ógöngum vegna of mikils hagvaxtar, of mikillar styrkingar íslensku krónunnar, of hárra vaxta o.s.frv. Við þekkjum þessa umræðu.

Við erum í sjálfu sér í ákveðinni tilraun með þessi opinberu fjármál. Það hefur meira að segja á liðnum vikum og mánuðum verið umræða um hvort þau standist stjórnarskrá, hvort búið sé að taka of mikið fjárveitingavald af Alþingi og færa framkvæmdarvaldinu. Umboðsmaður Alþingis er að skoða slíka hluti. Þeim mun sérstakara finnst mér að samþykkt Alþingis í desember á fjárlögum skuli ekki vera það verkfæri að ríkisstjórnin, framkvæmdarvaldið, taki einfaldlega þá niðurstöðu og framkvæmi hana heldur ögri hún þinginu, ekki bara stjórnarandstöðu heldur ekki síður stjórnarþingmönnum sem tóku þátt í þeirri afgreiðslu, að ganga ekki fram og klára verkin á grunni þess sem hefur verið samþykkt.

Hér á ég sérstaklega við samgönguhlutann og hafnarhlutann sem voru sérstakar bókanir um í fjárlaganefnd og samþykkt var hér í þinginu. Því að ef við erum í þessari tilraun og mistekst þá er það vont. Tilgangurinn var að skapa aukinn aga, skynsamlegar langtímaáætlanir sem við sæjum fram á að stæðust, þar sem við lögðum áherslu á hvað væru fjárfestingar sem skiluðu okkur arði til framtíðar, auknum hagvexti og aukinni þjónustu við íbúana, og hins vegar aukinn kostnaður við rekstur ríkisins sem hangir auðvitað líka saman og við þurfum að passa upp á að sé í takti við það sem við getum.

Ég hef með öðrum orðum skilning á þessari stöðu, að við þurfum að fara varlega á þenslutímum. Hagfræðikenningarnar segja að nú eigi ekkert að gera. Stóra spurningin er þá þessi: Hvenær eigum við að byggja upp innviðina ef ekki þegar við eigum nóg af fjármunum til þess?

Það væri hugsanlega í lagi að leggja fram svona plagg værum við búin að koma öllu hér í jafnvægi, búið væri að byggja upp alla innviðina, við værum ekki með þennan halla á innviðum heilbrigðiskerfis, samgangna og fleiri lykilkerfa sem við viljum að séu almennilega fjármögnuð og standi sig vel. En að leggja fram þetta plagg með auknu aðhaldi, viðbótarskrúfum til að passa upp á að ekki verði farið út fyrir rammann á sama tíma og krafa er um innviðauppbyggingu á öllum sviðum þegar við erum á toppi hagsveiflunnar og vitum að við erum á leiðinni niður, það bendir til þess að ríkisstjórnin ætli sér að stefna að því að hér verði niðurskurður þegar að því kemur og við sitjum bara uppi með innantóm kerfi.

Það þarf auðvitað að fara í innviðauppbyggingu í heilbrigðiskerfinu, í menntakerfinu en ekki síst í samgöngukerfinu. Ef fjármuni vantar finnst mér aumlegt af ríkisstjórninni að leggja til aukna skattheimtu á þá sem eru að keyra til og frá vinnu, þá sem keyra þjónustuvörur til og frá höfuðborgarsvæðinu, sem mun valda því að þær vörur verða dýrari. Sérstaklega í ljósi þess að markaðar tekjur, sem hæstv. fjármálaráðherra vill ekki kannast við að hafi nokkurn tíma verið markaðar, eru á bilinu 33–35 milljarðar og eiga að fara í vegaframkvæmdir, en rúmlega 20 fara í vegi. Og í alla vegagerðina með höfnum og flugvöllum um 27 milljarðar. Það er með öðrum orðum búið að fjármagna þessar framkvæmdir. Vilji menn slá á þensluna held ég að ekki sé skynsamlegast að auka skattheimtu á þá sem keyra til og frá vinnu eða keyra vörur til og frá höfuðborgarsvæðinu. Það hlýtur að vera skynsamlegra að fara inn á einhverja aðra þætti. Til að mynda verður að ræða hvort ekki sé skynsamlegt að taka upp annars konar gjaldtöku á ferðaþjónustu en við þekkjum í dag. Við Framsóknarmenn höfum lagt það til að setja á laggirnar eins konar komugjöld, hvort sem við köllum það farþegagjöld eins og Þjóðverjar kalla þau, sem er þar af leiðandi leyfilegt innan EES-svæðisins, þegar helsta land Evrópusambandsins leggur á slík gjöld, eða eitthvað annað, sem við getum líka nýtt til stýringar. Þau geta verið mishá eftir mismunandi árstíðum, eftir mismunandi flugvöllum. Isavia leggur á lendingargjöld sem eru mishá eftir árstíðum. Ef við þorum ekki að taka þessa umræðu, ef okkur vantar fjármagn til að fjármagna innviðauppbygginguna án þess að skekkja myndina, finnst mér sérkennilegt að geta ekki átt þetta samtal við nokkurn einasta stjórnarliða. Mér finnst það aumt.

Við höfum líka talað um að meiri fjármuni vanti í þetta kerfi. Væri skynsamlegt að setja á laggirnar lýðheilsuskatt? Endurvekja sykurskattinn? Hann var ómögulegur eins og hann var lagður á á sínum tíma. En kannski var þetta sá skattur sem landsmenn greiddu núna með bros á vör því að hann kemur heilsu okkar allra til góða og heilbrigðiskerfinu einnig.

Það er heldur ekki hægt að láta hjá líða að velta fyrir sér, vilji menn slá á þenslu, hverjir þeir séu sem valda mestu þenslunni. Eru það ekki þeir sem hafa mesta peninga undir höndum? Við búum við það að vera með sérkennilegan fjármagnstekjuskatt. Hann er til þess að gera nokkuð hár þó að prósentutalan sé lág miðað við Norðurlöndin. Af hverju skoðum við það ekki? Hvaða vit er í að þeir sem eiga 100 sauðkindur og höndla með fé þurfi að reikna sérreiknað endurgjald, borga hlutfall af þeim tekjum sem litlar eru í útsvar til sveitarfélagsins, en þeir sem eiga 100 milljónir og versla með sitt fé þurfi ekki að reikna sérreiknað endurgjald og borga ekkert til sveitarfélagsins í útsvar? Borga aðeins 20% fjármagnstekjuskatt, alveg eins og sá sem á 500 þús. kr. eða 1 milljón inni á bókinni sinni.

Það má velta fyrir sér skattkerfisbreytingum í þá átt að slá á þenslu, á þessum tíma. Ríkisstjórnin segir pass, við höfum ekki skoðun. Við ætlum að leggja skatt á þá sem keyra bílana meira. Okkur finnst þeir ekki skattlagðir nóg.

Þó var það þannig að í gær á aðalfundi eða ársfundi Samtaka atvinnulífsins hélt hæstv. forsætisráðherra ræðu þar sem hann talaði um að lækka efra þrep virðisaukaskattsins í það lægsta á Norðurlöndum. Við erum reyndar með það lægsta í dag en fara enn neðar, taka afgerandi forystu eins og hann sagði. Hugsanlega voru skilaboðin þau að virðisaukaskattur á ferðaþjónustuna í heild sinni, sem er 11% í dag, færi þá upp í 22%. Það er þó viðleitni til að slá á einhverja þenslu. En er þessi fjármálastefna þá einhvers virði? Ef á að fara að breyta skattkerfinu hérna þegar við erum að ljúka þessari umræðu?

Ég saknaði þess í nefndaráliti meiri hlutans að ekkert var fjallað um gengi og gengisþróun og afleiðingar hennar. Það var heldur ekki talað um hátt vaxtastig og afleiðingar þess. Það er náttúrlega augljóst samspil þarna á milli. Í fjármálastefnu til fimm ára sem á að girða svo vel í brók að ekki sé hægt að bæta á sig eins og einni köku eða öðru í þeim dúr er merkilegt að menn fjalli ekki um helstu viðfangsefni efnahagslífsins akkúrat á þessum tíma. Of hátt gengi, vaxandi gengi, hættu á að gengið styrkist enn frekar með tilheyrandi afleiðingum, ruðningsáhrifum ferðaþjónustunnar, og þeirri staðreynd að vextir á Íslandi eru alveg eins og umræðan um að aldrei sé hægt að fara í innviðauppbyggingu, hvorki í kreppu eða á góðæristímum. Vextirnir eru allt of háir hvort sem það er kreppa eða hápunktur þenslutímabils eins og við virðumst vera á í dag.

Við getum viðhaldið hagvextinum lengur, bætt við fleiri árum en þessum sjö. Sem er frábær árangur sem við höfum náð á síðustu árum. En við verðum að hafa skynsamlega stefnu þannig að við getum viðhaldið þessum tíma og lent hagkerfinu. Það er ekki skynsamlegt að vera með 7% hagvöxt ár eftir ár. Það verður einfaldlega mjög erfitt að höndla allt efnahagslífið í þeim takti.

Ég sakna þess að það virðist vera að ríkisstjórnin ætli að búa þannig um hnútana að fjármálastefnan sé ekki tæki til að taka á raunverulegum vanda í kerfinu. Þó er minnst á það í nefndaráliti meiri hlutans, sem er jákvætt, og með leyfi forseta ætla ég að vitna í álitið á bls. 4 í kaflanum Fjárfestingar hins opinbera:

„Til þess að stuðla ekki að enn meiri þenslu og styðja við peningamálastefnu Seðlabanka Íslands þarf ríkið að forgangsraða fjárfestingum sínum með þeim hætti að ekki verði hætta á ofþenslu á sama tíma. Til þess eru margar leiðir.“

Hvaða leiðir? Það stendur ekki mikið um þær. Þó er minnst á það sem var jákvætt og ég ætlaði að vitna til. Talað er um að hægt sé að vega og meta, og við Framsóknarmenn erum sammála því, þar sem þensluáhrif af fjárfestingum hins opinbera eru misjöfn eftir því hvers konar framkvæmdir það eru og hvar þær eru. Það eru svæði á landinu þar sem hagvöxturinn er hreint ekki þessi 7,2%. Hann er miklu lægri. Með öðrum orðum, hagvöxturinn á suðvesturhorninu hefur þá væntanlega verið hærri því að meðaltal landsins var 7,2% á síðasta ári. Skynsamlegt er og það er tækifæri til að fara í stórkostlega uppbyggingu innviða á landsbyggðinni, ekki síst í samgöngumálum en einnig á öðrum sviðum þar sem engin þensla er.

Er líklegt að núverandi ríkisstjórn geri það? Ekki miðað við þessa stefnu og ekki miðað við þau áform sem við höfum séð og heyrt til ráðherra ríkisstjórnarinnar. Hvað segja þingmennirnir? Þeir segja lítið, samkvæmt hv. þm. Einari Brynjólfssyni sem var að lesa upp listann yfir hvað hver segir. Þeir koma lítið hingað til að tjá skoðanir sínar. Þeir forðast algerlega að verja þessa fjármálastefnu. Sem ég skil vel. En einhver í stjórnarliðinu verður að gera það því að að lokum þarf að greiða atkvæði um þetta mál.

Í áliti meiri hlutans stendur, með leyfi forseta aftur, á bls. 4, þegar búið er að fjalla um að það sé svolítill galli að sveitarfélögin séu ekki alveg í takti við þetta og vilji ekki taka þátt í þessu og alls konar aðrar aðstæður séu uppi hjá sveitarfélögunum, þá segir meiri hlutinn:

„Engu að síður leggur meiri hlutinn til að stefnan sé samþykkt óbreytt, enda er brýnt að afgreiða þingsályktun um fjármálastefnu áður en kemur að umfjöllun um fjármálaáætlun fyrir sama tímabil til þess að umræður um ramma einstakra málefnasviða hafi ekki áhrif á heildarfjármál hins opinbera.“

Ef ég reyni að skilja þessa setningu og segja hana á mannamáli þá sýnist mér að meiri hlutinn, þótt hann sé ekki tilbúinn að verja þetta í þingsal, taka umræðuna um þessa stefnu, leggi til að hún verði samþykkt óbreytt. Og ástæðan er sú að það þarf að samþykkja hana áður en fjármálaáætlunin kemur fram svo þingmenn, kannski stjórnarþingmenn, fari nú ekki að segja: Heyrðu, það vantar hér fullt af peningum í þetta málefnasvið, við verðum bara að hækka þennan málaflokk snarlega. Og þá er fjármálastefnan dottin um koll.

Mér sýnist meiri hlutinn vera að segja að fyrst þurfi að búa til rammann sem við síðan aldrei komumst út úr. Stjórnarþingmenn verði bara að ýta á græna takkann og sætta sig við að það verði ekki sú innviðauppbygging sem þeir hafa vænst.

Virðulegi forseti. Það er mjög bagalegt að við séum að taka þessa umræðu hérna ein í salnum, stjórnarandstaðan. (Gripið fram í.) Með einni undantekningu. Og þannig hefur það verið lengst af í dag. Stundum einn, stundum enginn. En aldrei sá sami. Og hafa hv. stjórnarþingmenn komið í pontu og tekið samtal við okkur? Við höfum ekki séð það í dag. Það er líka bagalegt að hæstv. fjármálaráðherra sitji ekki hér og taki þátt í umræðunni. Ég veit að hann gerði það framan af umræðunni, en mikilvægt er að það verði gert til enda.

Ég ætla að ljúka máli mínu á að segja: Þessi stefna getur ekki staðið svona í fimm ár. Við í stjórnarandstöðunni munum greiða atkvæði gegn henni. Við í Framsóknarflokknum getum ekki staðið að stefnu sem við sjáum að er óraunhæf. Við þurfum stefnu þar sem er meiri hugsun um blandað hagkerfi, ef fjármuni vantar til að halda jafnvægi í skuldum og tekjum og ef skila á miklum afgangi og slá á þenslu, þá verða menn að koma fram með skynsamlegar skattkerfisbreytingar til að slá á þensluna, til að skapa fjármuni til innviðauppbyggingarinnar, en ekki vera með svona einsýna sýn á það að hægt sé bara að ramma hér allt inn í fastar skorður, skila sem mestum afgangi og vonast til þess að lánshæfismatsfyrirtækin úti í heimi blessi þetta, að Seðlabankinn verði glaður. Ég bendi á að í lögunum skal þetta skjal fara til umfjöllunar hjá fjármálaráði. Það gerði alls konar athugasemdir, m.a. um að það þyrfti meira aðhald. En það benti líka á að þessi viðbótarregla um að þak á fjárfestingu sem hlutfall af landsframleiðslu væri of stíft, vegna þess m.a. að við erum á toppi hagsveiflunnar.

Hæstv. forseti. Ég held að það væri skynsamlegast af meiri hlutanum að taka þetta til endurskoðunar, vera tilbúinn að leggja fram breytingartillögur þar sem meiri sveigjanleiki verður í fjármálastefnunni, þar sem tekið er meira tillit til þess sem gera þarf. Menn séu ekki fastir í hagfræðikreddum heldur horfi á raunveruleikann. Það þarf innviðauppbyggingu á Íslandi. En við þurfum auðvitað að passa þensluna. Það er vandasamt en þetta er hægt.