146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:33]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að það er í áliti meiri hlutans um afkomu sveitarfélaganna fjallað um að þau eigi að hafa sínar eigin fjármálareglur. Þau benda auðvitað á það. En í þessu plaggi var ætlast til að þau myndu skila ákveðnum afgangi, sem virðist hafa verið frekar illa unnið eða ekki lögð nægileg vinna í það, einfaldlega vegna þess að síðar kom í ljós að það var ekkert samkomulag við sveitarfélögin um þetta. Í meirihlutaálitinu er fjallað um að menn hafi ekki áttað sig á að lífeyrisskuldbindingarnar hjá lífeyrissjóðnum Brú og sveitarfélögunum sem ríkið tekur yfir geti haft veruleg áhrif bókhaldslega og valdið því að það verði útilokað bókhaldslega að ná þessum markmiðum í nokkurn tíma.

Það hefði kannski þurft að leggja aðeins meiri vinnu í þetta. Þetta er til marks um það.

Varðandi sveitarfélögin er augljóst að þau eru misjöfn. Kannski ekki alveg eins og þau eru mörg en það eru misjafnir hópar. Í sumum sveitarfélögum er veruleg útgjaldaþörf, einfaldlega vegna þess að þar fjölgar mikið og þar af leiðandi þarf að byggja upp leikskóla og skóla. Í sumum sveitarfélögum, tökum dæmi af Reykjanesbæ, sem er mjög skuldsettur, þar er fjölgun íbúa held ég 7% sem mun kalla á slíkar fjárfestingar, þrátt fyrir að þeir eigi í mestu erfiðleikum með að komast inn í 150% regluna á næstu árum. Í öðrum sveitarfélögum er staðan kannski önnur. Í einhverjum sveitarfélögum er fólksfækkun og minnkandi tekjur.

Þetta er erfitt og hlýtur að krefjast meira samtals. Ég sagði í ræðu minni að við værum að gera tilraun í þessu verkefni. Tilraunin mun mistakast ef það næst ekki samstarf sveitarfélaga og ríkis, þessara tveggja stjórnsýslustiga, um opinber fjármál. Þá mistekst tilraunin.