146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:38]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ræddi það fyrr í andsvari við hæstv. forseta að þessi regla myndi þrengja mjög að möguleikum á því að vera sveigjanlegur ef, og það er mjög líklegt, tíðin batnar ekki alltaf meira og meira, ekki verður alltaf stöðugt góðæri og stöðugur hagvöxtur, sérstaklega í ljósi þess að við horfum hér á stöðuga styrkingu krónunnar, mjög háa vexti, sem ekkert er fjallað um í nefndaráliti meiri hlutans. Það er hætta á að við förum fram af bjargbrúninni og að lendingin verði hörð, landsframleiðslan minnki mjög hratt. Og þá er búið að gyrða það allt saman af, það má ekki breyta stefnunni. Það hljómar auðvitað mjög sérkennilega fyrir þá sem á hlusta, að við getum ekki breytt hverju sem er, en tilgangur opinberu fjárreiðulaganna var að búa til meiri aga og langtímahugsun. Þess vegna er ég sammála hæstv. fjármálaráðherra að þetta er mikilvægt plagg, kannski ekki það mikilvægasta á heilu kjörtímabili en mikilvægt er það engu að síður. Þess vegna er enn sérkennilegra að stjórnarliðar skuli ekki taka þátt í umræðunni.

Afleiðingin getur orðið sú að vegna þess að stefnan bannar mönnum að bregðast við og fara í viðbótarfjárfestingar verði eina leiðin að hleypa einkaaðilunum að, eða selja fleiri eignir. Það er það sem mann grunar að sé undirliggjandi ástæða þess að menn setji sjálfum sér svo strangar reglur, eins og þeir treysti ekki sjálfum sér. En hinn tilgangurinn sé að búa til svo þröngan ramma að það verði að hugsa út fyrir boxið, gera eitthvað annað en að nota ríkisfjármál til að bregðast við ólíkum aðstæðum í efnahagslífinu.