146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:40]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir framlag hans í þessa umræðu. Hann sagði í ræðu sinni að skynsamlegt væri að fara nú í uppbyggingu, sérstaklega á landsbyggðinni, og lýsir því yfir í ræðustól að ef hann væri í ríkisstjórn nú myndi hann beita sér fyrir því að fara í langþráða uppbyggingu á innviðum samfélagsins. Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson segir þetta vegna þess að það sé tækifæri núna.

Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann hvað honum finnist um þessa ofuráherslu á niðurgreiðslu skulda niður fyrir lögboðin mörk í stað þess að verja hluta tekna ríkissjóðs í margumrædda innviðauppbyggingu sem beðið hefur verið eftir í mörg ár. Nú er lag, eins og hv. þingmaður lýsti. Hann er að vísu eitthvað búinn að koma inn á þetta í fyrri ræðu og í andsvörum en mig langar að heyra nákvæmlega hvað hv. þingmanni finnst um þessa ofuráherslu, sérstaklega þar sem hv. þingmaður er fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra sem sat í ráðherranefnd um efnahagsmál og tók stórar og miklar ákvarðanir í þessum málaflokki.