146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:44]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni svörin. Ég er sammála hv. þingmanni með þetta. Þrátt fyrir þennan gríðarlega hita og spennu í hagkerfinu eru engar raunverulegar leiðir boðaðar í þessari fjármálastefnu. Eins og við höfum margítrekað bent á er þetta ekki bara fjármálastefna til eins árs heldur fimm ára.

Hv. þingmaður minntist áðan í ræðu og andsvari á þessa spennu. Hún er nánast áþreifanleg. Lítið er boðað til að taka á spennunni í hagkerfinu. Ég er sammála honum í því. Hér er alveg ótrúlegt andvaraleysi gagnvart þessu spennustigi nema hvað hér er boðað að sjálfvirkri sveiflujöfnun verði beitt. En það er líka búið að grafa undan grunni þessarar sjálfvirku sveiflujöfnunar, sem á mannamáli þýðir að þetta eigi bara að jafna sig sjálft, tekjurnar komi inn og leiðrétti í raun þessa spennu. Hv. þingmaður minnist á stöðugleikasjóðinn sem er hugmynd sem hefur verið talað um. Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra út í þær hugmyndir. Hann gat eiginlega ekki svarað því. Þær eru einhvers staðar í lausu lofti. Hefði ekki verið vænlegra að boða raunverulegar aðgerðir til að minnka þessa spennu, hvort sem það er á húsnæðismarkaði eða varðandi gengið og vaxtastigið? Hvaða aðgerðir hefði hv. þingmaður séð fyrir sér við þessar aðstæður sem nú ríkja?