146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:59]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér finnst það áhugavert sem hv. þingmaður kom inn á sem varðar það að setja sér stefnu til framtíðar, gera áætlanir og svo það að hafa þær byggðar á einhverju og hafa einhver gögn sem áætlunin eða stefnan byggir á. Í ljósi þess, eins og hefur verið bent á í umræðunni, erum við í nýju umhverfi, þ.e. í umhverfi nýlega samþykktra laga um opinber fjármál.

Mig langar annars vegar að spyrja hv. þingmann hvort í því ljósi sé ekki einmitt gríðarlega mikilvægt að hafa þessi gögn, að hafa hluti til að byggja á, vegna þess að við erum að fara að taka ákvarðanir um það hvernig eigi að reka samfélagið næstu fimm árin. Miðað við þau gögn sem við höfum núna í hendi, verði stefnan samþykkt, erum við að gera það í dálítið mikilli blindni. Það vildi ég spyrja um annars vegar og hins vegar af því að hv. þingmaður talaði um stefnu langar mig að tengja það við aðra stefnu, annað markmið sem við sem þjóð settum okkur og reyndar þjóðir heimsins allar eða flestar með því að skrifa undir Parísarsamkomulagið. Það annars vegar og sú stefna sem hér er lögð fram tala á engan hátt saman, því að þessi stefna byggist á því að hagvöxtur muni aukast á komandi árum. Það er ekki hægt að hugsa málin þannig ef við ætlum a takast á við loftslagsmál. Mig langar að biðja hv. þingmann að hugsa þetta með mér og varpa ljósi á það hvernig hann sér þetta tvennt (Forseti hringir.) tala saman eða ekki tala saman, eins og hér á við.